20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Um 20% aukning umsókna við Háskólann á Akureyri á tveimur árum
Alls bárust 2024 umsóknir um nám við Háskólann á Akureyri en umsóknarfrestur rann út í vikunni. Þetta er 7% fjölgun frá því í fyrra og ef litið er til ársins 2022 er um að ræða tæplega 20% aukningu umsókna. Aukin aðsókn er í flestar námsleiðir á öllum námsstigum.
Sem dæmi er lítið lát á vinsældum grunnnáms í viðskiptafræði og þar hefur verið stöðug aukning undanfarin fimm ár. Þá er metaðsókn í hjúkrunarfræði, fjölgun umsókna nemur 11% frá síðastliðnu ári og hafa ekki fleiri sóst eftir námsplássi í hjúkrunarfræði frá árinu 2018. Einnig er fjölgun umsókna í grunnnám í sálfræði. Báðar þessar námsleiðir eru háðar fjöldatakmörkunum og að loknum samkeppnisprófum kemst aðeins hluti stúdenta í áframhaldandi nám á vormisseri.
Hlutfall kennaramenntaðra hækkað upp í tæp 90%
Fjölgun umsókna í Kennaradeild er um 22% og er það mesta fjölgun í deild á milli ára. Heildarfjöldi umsókna í Kennaradeild er 387. Í fyrra voru 30 ár síðan Kennaradeild HA var stofnuð meðal annars með það að markmiði að fjölga kennaramenntuðu fólki á landsbyggðunum. Á tæpum 20 árum hefur náðst árangur hvað það varðar og hlutfall menntaðra kennara í grunnskólum á Norðurlandi eystra farið úr 70% í tæp 90% og í leikskólum hefur hlutfallið hækkað um 10%.
Aldrei fleiri í líftækni
Aldrei hafa borist fleiri umsóknir í líftækni og Háskólinn á Akureyri er eini háskóli landsins sem býður upp á BS gráðu í líftækni. „Líftæknin er ört vaxandi svið, bæði hér á landi sem og á heimsvísu. Fjölgun umsókna endurspeglar þann mikla vöxt. Ég held að fjölgunin sé í takt við þau fjölbreyttu störf sem bíða stúdenta að námi loknu enda er líftæknin breitt svið. Á undanförnum árum hafa fjölmörg líftæknifyrirtæki skotið upp kollinum á Íslandi og eftirspurn eftir útskrifuðum líftæknum er mikil,“ segir Auður Sigurbjörnsdóttir, dósent og tilvonandi deildarforseti við Auðlindadeild á vef Háskólans á Akureyri
Háskóli landsins alls
Eyjólfur Guðmundsson, rektor segir um fjölgun umsókna, „Við erum mjög ánægð með þessa aukningu enda þriðji stærsti árgangur frá upphafi. Þetta þýðir að Háskólinn á Akureyri stefnir hraðbyri í 3000 stúdenta markið og hefur því vaxið stöðugt síðastliðinn tíu ár. Háskólinn á Akureyri er svo sannarlega háskóli landsins alls og það sést á búsetu stúdentahópsins. HA hefur fyrir löngu sannað gildi sitt í íslensku samfélagi og eflaust gera ekki allir sér grein fyrir þeim áhrifum sem Háskólinn á Akureyri hefur haft fyrir landsbyggðirnar á Íslandi. Námsfyrirkomulagið okkar opnar dyr og gefur stúdentum í landinu öllu tækifæri á námi í heimabyggð og hafa rannsóknir sýnt fram á jákvæð áhrif á byggðaþróun samhliða þessu.“
Unnið er að því að afgreiða umsóknir en umsækjendur þurf að staðfesta skólavist með því að greiða skrásetningargjald fyrir 4. júlí.