Um 15% íbúða sem byggðar eru á Akureyri ekki nýttar af íbúum sveitarfélagsins

Hlutfall íbúða í eigu fjarfesta, félagasamtaka eða annarra sem ekki eru með skráð lögheimili á Akure…
Hlutfall íbúða í eigu fjarfesta, félagasamtaka eða annarra sem ekki eru með skráð lögheimili á Akureyri eru á bilinu 15 til 20%. Mynd á vefsíðu Akureyrarbæjar, María Helena Tryggvasóttir

„Varðandi tölur um íbúa per íbúð þá gefa þær ekki alveg rétta mynd af stöðunni á Akureyri vegna fjölda íbúða sem eru í eigu aðila sem ekki eru með lögheimili í bænum,“ segir í drögum að húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar. Bæjarstjórn samþykkt húsnæðisáætlunina með 8 atkvæðum á fundi fyrir jól, en þrír sátu hjá.

Um eitt þúsund íbúðir, 11,4% allra íbúða á Akureyri eru í eigu fjárfesta, félagasamtaka eða annarra sem ekki eru með skráð lögheimili á Akureyri samkvæmt upplýsingum úr aðalskipulagi Akureyrar 2018 til 2030. Miðað við þróun síðustu ára er talið að þetta hlutfall hafi hækkað og geti verið á bilinu 15 til 20% nú.

Í aðalskipulaginu og húsnæðisáætlun er miðað við að hlutfall þessara íbúða haldist sem felur í sér að um 15% íbúða sem byggðar eru á hverju ári verða ekki nýttar af íbúum sveitarfélagsins.

Ef eingöngu er litið til íbúða með fasta búsetu má sjá að fjöldi íbúa per íbúð er um 2,6. Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir að breytt aldurssamsetning og breytingar í fjölskyldustærð verði til þess að hlutfall íbúa per íbúð eigi eftir að lækka enn meira á næstu árum.

Íbúafjöldi í Hrísey hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin 10 ár og var 161 íbúi skráður í eyjunni árið 2023 en voru 169 árið 2022 og 165 árið 2012. Eins og á Akureyri er töluverður fjöldi íbúða í eigu aðila sem ekki eiga þar lögheimili.

 Í Grímsey hefur þróunin verið önnur en þar hefur verið nokkuð stöðug fækkun íbúa undanfarin 10-20 ár. Árið 2022 voru 53 íbúar skráðir í eyjunni en voru 80 árið 2012 auk sem þess sem töluvert færri eru með búsetu allt árið.

Nýjast