20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Um 1200 manns sáu Stúf
Nú hefur Stúfur lokið sýningum á leiksýningu sinni í Samkomuhúsinu. Hann sinnir nú sínum jólasveinaskyldum enda nóg að gera við að gleðja og skemmta í desember. Stúfur sýndi alls 6 sýningar fyrir nærri 1.200 áhorfendur!
Í stuttu máli þá var uppselt á allar sýningar og mikil gleði meðal áhorfenda með þessa bráðhressandi og hjartastyrkjandi sýningu. Stúfur og Leikfélag Akureyrar með fulltingi Norðurorku buðu 3. og 4. bekk allra grunnskóla á Akureyri og í sveitafélögum í kring í leikhús. 600 börn þáðu boðið og létu þakið nærri rifna af Samkomuhúsinu svo mikil var stemningin.
Stúfur kann öllum miklar þakkir fyrir stuðninginn og góðar móttökur. Svo mikil var ánægja okkar hjá Menningarfélagi Akureyrar að Leikfélagið og Norðurorka buðu Stúf að koma með sýninguna sína um næstu jól í Samkomuhúsið! Stúfur þáði boðið og segist hlakka til að læra meira á leikhúsið og mæta þá með nokkra nýja leikhúsgaldra.
Stúfur hóf æfingar á leiksýningunni sinni í lok nóvember. Á æfingartímanum bauð hann efstu bekkjum í leikskólum á Akureyri að koma í heimsókn og fá leiðsögn um Samkomuhúsið frá leikhúsastjóranum. Frábær þátttaka var frá leikskólunum og var glatt á hjalla í þessu 110 ára gamla húsi. Á annað hundrað leikskólabörn þáðu boð Leikfélagsins og Stúfs.