30. október - 6. nóember - Tbl 44
Úlla Árdal ráðin framkvæmdastjóri Mývatnsstofu
Úlla Árdal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Mývatnsstofu og hefur hún þegar hafið störf. Mývatnsstofa er samnefnari atvinnu- og mannlífs í Þingeyjarsveit og sinnir markaðssetningu, upplýsingaöflun og miðlun, hagsmunagæslu og umræðuvöktun á svæðinu. Eitt af markmiðum fyrirtækisins er að styrkja jaðartíma ferðaþjónustu á svæðinu, auka þar af leiðandi þjónustustörf og stuðla þannig að fjölgun atvinnutækifæra á heilsárs grundvelli.
Úlla er margmiðlunarfræðingur frá Margmiðlunarskólanum og digital compositor frá Campus i12 í Svíþjóð. Hún hefur sinnt stöðu markaðs- og þróunarstjóra Mývatnsstofu síðustu 3 ár.
Þar áður starfaði Úlla sem fréttamaður RÚV á Norðurlandi og á sjónvarpsstöðinni N4.
Úlla mun sjá um daglegan rekstur Mývatnsstofu og markaðssetningu Þingeyjarsveitar til innlendra og erlendra ferðamanna ásamt því að fylgja eftir þeim verkefnum sem styðja við hvers konar uppbyggingu í sveitarfélaginu. Þá heldur Mývatnsstofa úti öflugu viðburðastarfi s.s. Vetrarhátíð við Mývatn, Mývatnsmaraþon og Jólasveinarnir í Dimmuborgum.
„Úlla hefur öðlast góða reynslu síðastliðin ár innan Mývatnsstofu og þekkir því starfsemina vel, sem er dýrmætt. Við erum afskaplega glöð með ráðningu hennar og hlökkum til að fylgjast með henni vaxa í starfi.“ segir Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir, stjórnarformaður Mývatnsstofu.