Tvöföld opnun á Listasafninu á laugardag

Listasafnið á Akureyri.
Listasafnið á Akureyri.

Laugardaginn 19. febrúar kl. 12-17 verða sýningarnar Sköpun bernskunnar 2022 og Form í flæði I opnaðar í Listasafninu á Akureyri.

Þetta er níunda sýningin undir yfirskriftinni Sköpun bernskunnar, en hún er sett upp sem hluti af safnfræðslu og með það markmið að gera sýnilegt og örva skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn. Þátttakendurnir vinna verk sem falla að þema sýningarinnar sem að þessu sinni er Fuglar og önnur dýr.

Myndlistarmennirnir sem boðin var þátttaka í ár eru Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Helgi Þorgils Friðjónsson. Þau eru bæði landsþekkt fyrir list sína, skúlptúra og málverk, af fólki og dýrum. Skólarnir sem taka þátt að þessu sinni eru leikskólinn Lundarsel og grunnskólarnir Hlíðarskóli, Oddeyrarskóli og Hríseyjarskóli, sem og Minjasafnið á Akureyri / Leikfangahúsið.

Leikskólabörnin vinna sín verk á Listasafninu undir handleiðslu Aðalheiðar og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur, fræðslufulltrúa og sýningarstjóra. Myndmenntakennarar grunnskólanna sem taka þátt stýra þeirri vinnu sem unnin er sérstaklega fyrir sýninguna í samstarfi við nemendur. Sköpun bernskunnar hlaut öndvegisstyrk Safnaráðs 2020 til þriggja ára. Sýningarstjóri er Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

Form í flæði I

Í safnfræðslurými Listasafnsins eru haldnar ýmis konar listsmiðjur og þar gefst safngestum einnig færi á að doka við og skapa sína eigin list í fallegu og skapandi umhverfi.

Í safnfræðslurými Listasafnsins eru haldnar ýmis konar listsmiðjur og þar gefst safngestum einnig færi á að doka við og skapa sína eigin list í fallegu og skapandi umhverfi. Í rýminu eru reglulega settar upp sýningar, bæði með afrakstri úr listsmiðjunum og með verkum úr safneign Listasafnsins. Þau verk, ásamt öðrum sýningum safnsins, geta gestir notað sem innblástur í eigin sköpun, þó að valið sé að sjálfsögðu frjálst. Formi í flæði I er hluti af þessari þróunarvinnu og á sýningunni gefur að líta úrval verka úr safneign Listasafnsins á Akureyri.

Öll sköpun er góð, en að skapa í listasafni er einstök upplifun. Hægt er að nota listaverkin á veggjunum sem fyrirmynd og blanda saman litum og áhrifum úr ólíkum verkum. Liti, form og línur er hentugt að nota á pappírinn sem er á borðinu fyrir safngestina, jafnvel þó listaverkin kunni að vera gerð úr öðrum efniviði. Innihald verkanna miðast við þema hverrar sýningar.

Sýningarstjórar eru Guðrún Pálína Guðmundsdóttir og Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.

Nýjast