20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Tvílembingshrútar frá Hólshúsum fundust í Glerárdal eftir að hafa gengið úti í vetur
„Það var mikil gleði ríkjandi þegar þeir komu heim,“ segir Kolbrún Ingólfsdóttir sem um liðna helgi fékk tvílembingshrúta í hendur en þeir skiluðu sér ekki með móður sinni í réttina síðastliðið haust.
Kolbrún Ingólfsdóttir nýtir tímann í fjárhúsunum vel og grípur í prjóna.
Kolbrún býr í Hólshúsum í Eyjafjarðarsveit og heldur 16 kindur sér til ánægju. „Það var mikið leitað fram eftir öllu hausti og einkum og sér í lagi vorum við á ferðinni í Grundarfjalli hér ofan við okkur. Ég sá talsvert af kindum í þessum ferðum en þær voru í eigu bænda hér um slóðir,“ segir hún og var farin að sætta sig við að hrútarnir hefðu drepist í vetur. „Mér fannst líklegast að þeir hefðu ekki lifað þetta af,“ bætir hún við og nefnir að talsvert sé um tófu í fjallinu og hún hefði ef til vill komið við sögu í hvarfi þeirra.
Göngumaður sá hrútana fyrst
Það var svo 10. mars síðastliðinn sem göngumaður kom auga á tvær kindur á ferð sinni í Glerárdal, hann náði af þeim ágætri mynd og fannst líkur á að þar væru komnir tvílembingarnir frá Hólshúsum. Sendi hann myndin til tengdasonar Kolbrúnar sem þekkti hrúta sína á henni Við það var leitin víkkuð út og beindist að Glerárdal, en í fyrstu fannst henni ekki líklegt að þeir hefðu villst þar yfir. „Það er ekki algengt að kindur héðan fari yfir í Glerárdal en hefur af og til komið fyrir,“ segir hún.
Leitað var alla daga eftir að þeir sáust fyrst. Vélsleðamenn sem fóru um dalinn höfðu augun hjá sér og segir Kolbrún að einn þeirra, Baldur Garðarsson hafi séð hrútana og náð þeim. Komust þeir heim um liðna helgi og eru þar í góðu yfirlæti. Kolbrún segir þá vera í góðum holdum við heimkomuna og hornahlaup vænt þannig að ekki hafi þeir soltið þann tíma sem þeir höfðust við úti í vetur. „Veturinn var snjóléttur og þeir hafa verið í þokkalegu æti, ekki liðið neinn skort sýnist mér,“ segir hún.
Kolbrún segir hrútana vera í góðum holdum við heimkomuna og hornahlaup vænt
Ánægjulegt að koma hrútunum heim
„Það var virkilega ánægjulegt að ná þeim og koma til síns heima,“ segir Baldur Garðarsson sem fann hrútana og kom þeim til byggða. Hann starfar í Líflandi og á sjálfur um 30 kindur. sem hann heldur sér til skemmtunar. Með honum í för var Tobias Sigurðsson, Tobbi.
„Ég heyrði af því að sést hafði til kinda á Glerárdal og fór nokkrar ferðir til að leita að þeim, bæði yfir helgi og svo eftir vinnu líka á virku dögunum. Ég sá aldrei neitt til þeirra en það var svo þegar ég hafði flogið yfir svæðið sem ég kom auga á þá,“ segir Baldur. Þar sem var frekar snjólétt féllu þeir vel inn í landslagið og ekki svo gott að sjá til þeirra. „Þeir létu alveg hafa töluvert fyrir sér áður en þeir fundust.“
Með sitt hvorn hrútinn í fanginu
Eftir að hann hafði séð þá úr lofti fóru þeir Tobias enn á ný af stað og fundu hrútana sunnan megin við Glerár ofan við stíflu. Áin var ísilögð og þeir komust auðveldlega yfir hana. „Við náðum þeim norðan megin ár og reiddum þá á sleðanum til byggða,“ segir Baldur. Voru þeir félagar með sitt hvorn hrútinn í fanginu og gekk heimferð vel. Þegar komið var til byggða voru hrútarnir settir upp á hestakerru og fluttir heim í Hólshús.
Hrútarnir fram á dal við stíflu.