„Torfbæirnir eru okkar kastalar“
„Sumarið hefur verið mjög gott og mér sýnist við nálgast svipaða aðsókn og var fyrir kórónuveiru, sumarið 2019. Það munar miklu að skemmtiferðaskipin eru farin að sigla á ný en farþegar þeirra eru um 90% af öllum okkar gestum,” segir Haraldur Þór Egilsson safnvörður á Minjasafninu á Akureyri, sem rekur Gamla bæinn á Laufási. Þar hefur verið margt um manninn í sumar, einkum þó þá daga sem skemmtiferðaskip hafa viðkomu á Akureyri.
„Við erum að venjast því að hafa fullt af fólki í kringum okkur á ný og það er virkilega ánægjulegt eftir tvö erfið ár,” segir hann og vísar til áranna 2020 og 2021 þegar heimsfaraldur kórónuveiru geisaði með þeim afleiðingum að á stundum varð að loka söfnunum og í annan tíma að takmarka aðgang við ákveðinn fjölda inn í hverju rými. „Við þurftum að fara alveg niður í fjóra í hverju rými á einstaka stað, m.a. í Laufási þar sem húsakynni eru lítil. Þetta setti okkar starfsemi vissulega miklar skorður. Annars má almennt segja að við höfum komið furðu þokkalega út úr þessu kóvid ástandi þegar á allt er litið,” segir Haraldur Þór.
Söfnin hafi orðið fyrir miklu tekjutapi á þessum tíma. Þau fengu enga rekstrarstyrki frá ríki aðeins styrki með nokkrum námsstörfum, önnur úrræði á vegum stjórnvalda voru ekki í boði. „Einhvern vegin komumst við í gegnum þetta og það er fyrir mestu,” segir hann.
Opið út september
Haraldur Þór segir Íslendinga ekki sérlega duglega við að sækja Laufás heim. „Það er einhvern vegin þannig að fólk fer einu sinn og skoðar torfbæ einhvers staðar og þá er það afgreitt, því finnst að ekki þurfi að skoða aðra staði eða fara aftur. Þetta er bara búið,” segir hann.
Fjölmargir hafa lagt leið sína í Laufás í sumar og vel er bókað það sem eftir lifir af ágústmánuði og fram í september. Gamli bærinn í Laufási verður opinn alla daga út september en síðasta skemmtiferðaskipið sem kemur við á Akureyri verður á ferðinni í byrjun október. Skipakomur hafa verið margar í sumar og þó nokkrar eftir áður en haustið leggst á af fullum þunga. Einhverja daga sumarsins hafa þrjú skip legið við bryggju og þá er líf og fjör í gamla Laufásbænum.
„Það er ansi margt stundum um manninn þegar rúturnar koma, það má kannski orða það svo að þá sé uppselt.”
Um 500 manns á stóru dögunum
Á þessum stærstu dögum koma allt að 500 manns í Laufás en þeir dreifast yfir daginn. „Það hefur verið mikið um að vera í sumar og bókarnir fram á haustið eru góðar líka. Þetta eru mjög ánægjuleg umskipti þegar miðað er við fyrri tvö sumur,” segir Haraldur Þór.
Sumarið 2020 komu tveir hópar við í Laufási þegar þar var opið, um 100 manns. Talsvert fleiri komu í fyrrasumar eða um 60 hópar. Nú verða hóparnir fimmfalt fleiri, yfir 300 talsins. “Það er allt að komast á svipað ról og var áður en faraldurinn skall á okkur.“ Um 20 þúsund gestir komu í Laufás sumarið 2019 og giskar safnvörðurinn á að þegar upp verði staðið í haust verði gestir sumarsins jafnvel um 18 þúsund talsins.
Söfn drjúg í ferðaþjónustu
Haraldur Þór segir söfn drjúg í ferðaþjónustunni, margir geri sér ekki fyllilega grein fyrir hversu miklu þau skipti í þeirri atvinnugrein. „Söfn eru það sem draga marga að, þeir virka sem segull,” segir hann. Sem dæmi eru söfn oft oftarlega á blað hjá ferðalöngum sem leggja leið sína á Norðurland, ekki síst torfhúsa arfleiðfðin. “Torfbæir eru okkar kastalar, þetta er okkar byggingaarfleið og við eigum að gera henni hátt undir höfði. Fólk er almennt áhugasamt að sjá og skoða þessa bæi, hvernig þeir eru byggðir og allt sem þeim viðkemur. Það er margt sem kemur fólki skemmtilega á óvart eftir heimsókn í torfbæ,” segir Haraldur Þór