Tollfrelsi minni skemmtiferðaskipa afnumið um næstu áramót

Hringsiglingar minni skemmtiferðaskipa, svonefndra leiðangursskipa gætu lagst af hér við land í kjöl…
Hringsiglingar minni skemmtiferðaskipa, svonefndra leiðangursskipa gætu lagst af hér við land í kjölfar þessa að um áramót verður tollfrelsi sem skipin hafa notið afnumið

„Það er augljóst eins og málið horfir við okkur að þetta verður skaði fyrir landsbyggðina, sérstaklega minni staði þar sem skipin skipta miklu máli fyrir samfélagið,“ segir Jóhanna Tryggvadóttir verkefna- og markaðsstjóri Hafnasamlags Norðurlands. Um næstu áramót verður tollfrelsi sem m.a. leiðangursskip hafa notið hér við land afnumið.

Ísland hefur verið í ákveðinni sérstöðu þegar kemur að því að fá til sín leiðangursskip sem stoppa á fjölmörgum stöðum víðs vegar um landið. Jóhanna segir að tollfrelsi hringsiglinga leiðangursskipanna í kringum landið hafi á sínum tíma verið sett á til að laða að minni skemmtiferðaskip – leiðangursskip – að áfangastöðum landsbyggðarinnar sem ekki eru í alfaraleið. Blikur eru á lofti varðandi áframhaldandi siglingar skipanna nú þegar fyrir liggur að tollfrelsið verður afnumið.

Fulltrúar Hafnasamlags Norðurlands voru á Seatrade Cruise Med ráðstefnunni í Malaga í liðinni viku ásamt forsvarsmönnum annarra hafna landsins, umboðsaðilum og ferðaskrifstofum undir hatti Cruise Iceland. Fundað var með öllum helstu skipafélögunum skemmtiferðaskipanna og var afnám tollfrelsis hringsiglinga að sögn Jóhönnu mikið til umræðu.

Jóhanna Tryggvadóttir verkefna- og markaðsstjóri Hafnasamlags Norðurlands

Einmitt farþegarnir sem við viljum fá

„Þessi minni leiðangursskip eru með færri farþega en mörg þeirra eru lúxus skip og farþegar eyða miklu fé í landi. Einnig eru mikið af náttúruvísindafólki um borð í þessum skipum. Mikið er um fræðslu og fyrirlestra fyrir farþega en oft eru líka vísindamenn um borð sem taka sýni til rannsókna á stöðum sem ekki er möguleiki að komast á, nema með þessum skipum. Þetta eru þar af leiðandi kannski einmitt þeir farþegar sem við viljum fá hingað til lands,“ segir Jóhanna. Leiðangursskipin koma til yfir 30 hafna um landið og þá má nefna Akureyri, Bolungarvík, Djúpavog, Eskifjörð, Flatey, Grímsey, Heimaey, Hrísey, Húsavík, Patreksfjörð, Seyðisfjörð, Siglufjörð, Stykkishólm, Vigur, Þorlákshöfn.

Þegar fengið afbókanir

Jóhanna segir að strax á ráðstefnunni á Spáni hafi nokkrar af minni höfnum landsins fengið afbókanir á fundum með skipafélögunum og það vegna þeirrar óvissu sem ríkir varðandi tollfrelsið. Fram kom einnig hjá forsvarsmönnum skipafélaganna að líklegt væri að dvöl skipanna á Íslandi yrði stytt og nefnt var að fleiri stöðum eins og Færeyjum sem dæmi yrði bætt við siglinguna. Jafnvel var nefnt að alfarið yrði hætt við hringsiglingu um Ísland.

„Við veltum fyrir okkur hvort lagt hafi verið mat á hvaða afleiðingar það hefur fyrir landsbyggðina ef hringsiglingar skipanna leggjast  af. Þetta mun ekki bara hafa áhrif fyrir hafnir, heldur einnig skaðleg áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki sem eru að byggjast upp,“ segir Jóhanna og bætir við hvort þessi aðgerð, að afnema tollfrelsi hringsiglinga stangist ekki á við nýsamþykkta ferðamálastefnu.


Athugasemdir

Nýjast