20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Tökum Akureyri á flug
Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um brýna nauðsyn þess að koma upp beinu millilandaflugi frá Akureyri. Ýmislegt hefur verið gert og Markaðsstofa Ferðamála hefur haldið utan um verkefnið Air66, þar sem áhersla hefur verið lögð á að fá erlend flugfélög til að hefja beint milllandaflug til Akureyrar.
Síðast liðinn vetur hóf ferðaskrifstofan Super Break beint flug frá nokkrum stöðum á Bretlandi til Akureyrar og það er út af fyrir sig mikið fagnaðarefni, en nægir ekki til að íbúar á Akureyri og nágrenni fái notið reglulegs millilandaflugs. Nokkrum sinnum hafa borist spurning af því að flugfélög séu líkleg til að hefja flug innan tiltekins tíma, en af því hefur ekki orðið.
Tíminn er kominn
Á einhverjum tíma þarf að endurmeta þær aðferðir sem beitt er til að ná markmiðinu um reglubundið beint flug, og sá tími er kominn að mínu mati. Þrátt fyrir mikla og góða vinnu hefur ekki tekist að finna aðila sem er tilbúinn til að hefja flug án þess að til komi ábyrgðir frá heimamönnum. Þess vegna þarf að stofna félag um um að koma á beinu flugi frá Akureyri og bærinn þarf að hafa forgöngu um stofnunina. Bærinn þarf að fá hagsmunaaðila og almenning með sér í fjármögnun félagsins, þannig að nægilegir fjármunir safnist til að koma flugi af stað.
Ástæða til bjartsýni
Einhverjum kann að þykja bitinn of stór til að kyngja, en sé markaðurinn á upptökusvæði flugvallarins skoðaður, frá Skagafirði til Austfjarða þá er fólksfjöldinn um 50 þúsund manns. Til samanburðar eru frændur okkar Færeyingar um 50 þúsund, og þeir njóta þess að hafa að jafnaði um 4 flug daglega frá Færeyjum. Hingað til hafa ferðamenn verið heldur fáir í Færeyjum og því mest heimamenn sem nýta sér flugið. Þegar Iceland Express hóf beint flug að sumri til frá Akureyri, fóru bókanir batnandi með hverju árinu og voru orðnar býsna góðar þegar fluginu var hætt af öðrum ástæðum. Áhugi og nýting í ferðum Super Break gefur einnig ástæðu til bjartsýni.
Stuðningur heimafólks
Barátta og stuðningur heimafólks skipti sköpum þegar Vaðlaheiðargöng voru til umræðu. Hlutur Akureyrarbæjar í Vaðlaheiðargöngum nemur um 200 milljónum króna, sem er væntanlega álíka upphæð og þarf til að koma flugi af stað. Verkefnið er því hvorki stærra en önnur sem við höfum ráðist í né stærra en við getum ráðið við sem samfélag. Því er full ástæða til að láta reyna á það hvort hægt er að koma á beinu flugi, en við þurfum að gera það sjálf. Valkosturinn er að bíða áfram og vona að eitthvert flugfélag komi. Tökum því betri kostinn og hefjum undirbúning strax.
-Unnar Jónsson, höfundur skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar til bæjarstjórnarkosninga á Akureyri 2018