Töfrateppið slær í gegn og brúar kynslóðabilið
Mikið líf og fjör var á skíðasvæðinu í Hliðarfjalli um hátíðarnar. Um 6.500 manns komu í fjallið og nutu hressandi útiveru í fallegu en á köflum ansi köldu veðri.
Nýja yfirbyggingin á Töfrateppinu sló rækilega í gegn og var áberandi að nú renndu fleiri fullorðnir sér í brekkunni þar en oft áður. Því má segja að yfirbyggingin hafi afmáð allt kynslóðabil og skemmta ungir sem aldnir sér hið besta saman í þessari skemmtilegu braut sem hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum. Lýsingin í yfirbyggingunni gefur Töfrateppinu skemmtilegan blæ og öðruvísi stemningu þegar litbrigðin breytast.
Vilja snjó, stillur og kulda
Hlýindi í byrjun þessarar viku hafa sett strik í reikninginn fyrir útivist í Hlíðarfjalli en það er kuldi í kortunum og starfsfólk Hlíðarfjalls telur þónokkuð góðar líkur á að staðan batni enn frekar um eða upp úr næstu helgi þótt spáin geti auðvitað breyst til hins verra, þ.e.a.s. með áframhaldandi hláku. „Við viljum snjó, stillur og kulda!“ kyrja þau á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli segir í frétt á vefsíðu Akureyrarbæjar.