Todmobile heldur tónleika á Græna
Fjölbreytt dagskrá er á Græna hattinum um helgina.
Vínylplötusnúðurinn Vél-Arnar mun standa fyrir dansiballi á Græna hattinum í kvöld, fimmtudag, þar sem meginþemað verður „Rocky Horror“. Skemmtunin hefst kl. 21.00.
Á föstudagskvöldið eru hljómsveitirnar Dalí og Thingtak með tónleika. Dalí er hugarfóstur söngkonunnar og bassaleikarans Erlu Stefánsdóttur. Sveitin var stofnuð haustið 2014 og samanstendur af Erlu, sem spilar á bassa og syngur, Helga Reyni Jónssyni gítarleikara, Þórði Gunnari Þorvaldssyni gítar- og hljómborðsleikara og Fúsa Óttars trommuleikara en öll hafa þau komið víða fram á íslenska tónlistarsviðinu.
Tónlistarstefna Dalí er fjölbreytt; þar gætir áhrifa meðal annars frá Joni Mitchell og Primus en á sinn eigin, sérstaka hátt. Hljómsveitin hefur vakið mikla athygli fyrir lifandi flutning og komið fram bæði á stórum tónlistarhátíðunum, þ.á m. Iceland Airwaves, Secret Solstice, Gærunni sem og á minni viðburðum eins og hinum alþjóðlegu Sofar Sounds tónleikaviðburðum.
Hljómsveitin Thingtak var stofnuð haustið 2005 og kallaði sig í upphafi Alþingi. Til að gera langa sögu stutta voru meðlimir Alþingis boðaðir á fund með lögfræðingum Alþingis, þar sem bann var lagt á nafngiftina. Hljómsveitin tók þá upp nafnið Thingtak, en á Alþingi hinu forna slógu menn saman sverði og skildi sem tákn um að þeir samþykktu lög og var það kallað þingtak.
Thingtak gaf út plötu samnefnda hljómsveitinni 8. apríl 2006. Þema þeirrar plötu er atburðir í Íslandssögunni frá landnámi til siðaskipta. Sveitin hefur lokið upptökum á annari breiðskífu sinni sem mun bera titilinn „Politics“ og er hún væntanleg á næstu mánuðum. Meðlimir sveitarinnar eru Stefán Jakobsson, söngur og bassi, Hrafnkell Brimar Hallmundsson, gítar og raddir og Sverrir Páll Snorrason trommur. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.
Á laugardagkvöldið er það stórhljómsveitin Todmobile sem er með tvenna tónleika. Gréta Salóme hefur gengið til liðs við hljómsveitina sem fiðluleikari og bakraddasöngkona. Aðrir hljómsveitameðlimir eru Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson gítar, Andrea Gylfadóttir söngur, Eyþór Ingi söngur og gítar, Kjartan Valdimarsson hljómborð, Eiður Arnarsson bassi, Ólafur Hólm Einarsson trommur og Alma Rut bakraddir. Tónleikarnir eru kl. 20.00 og 23.00.