Tíu verk valin til þátttöku í Upptaktinum
Dómnefnd, skipuð landsþekktum tónlistarmönnum, hefur valið tíu verk til þátttöku í Upptaktinum á Akureyri. Yfir 20 verk bárust að þessu sinni er fram kemur í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar. Upptakturinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna, gefur ungu fólki tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum með fulltingi listafólks.
Afrakstur vinnunnar má sjá og heyra á tónleikum Upptaktsins í Menningarhúsinu Hofi sunnudaginn 9. maí næstkomandi þar sem atvinnuhljóðfæraleikarar leika verkin. Tónlistarfólkið Greta Salóme og Kristján Edelstein vinna með krökkunum áfram að útsetningu laganna fyrir flutning á tónleikunum.
Upptakturinn er samstarfsverkefni Menningarhússins Hofs og Upptaktsins í Hörpu og styrkt af SSNE.