Tilvera í lit
Með hverjum deginum styttist í að ég komist á sjötugsaldur. Ég man því tímana tvenna. Ekki er nóg með að ég hafi lifað sjónvarpslausa fimmtudaga og júlímánuði, fyrstu átta ár ævi minnar voru alveg sjónvarpslaus ef frá eru talin örfá skipti þegar ég sá Bonanza í Kananum í heimsóknum fjölskyldunnar til bróður pabba í Keflavík.
Þegar sjónvarpsútsendingar fóru að nást hér norðan heiða á ofanverðum sjöunda áratug síðustu aldar var myndin svarthvít. Árið 1975 var farið að senda út í lit. Það var umdeild ákvörðun. Höfðu sumir af því áhyggjur að landsmenn eyddu öllum gjaldeyrisforðanum í litasjónvörp og við blasti þjóðargjaldþrot.
Gömlu dagarnir voru góðir en þótt það kosti sitt finnst mér samt betra að hafa tilveruna í lit en svarthvíta. Ég er líka þakklátur fyrir að nú er mannlífið litskrúðugra en þá. Eitt sinn voru til dæmis allir gagnkynhneigðir og ekki langt síðan samkynhneigð varð viðurkenndur möguleiki. Nú er ég löngu hættur að hafa tölu á kynhneigðum fólks. Mannkynið er líka hætt að skiptast bara í kvenkyns og karlkyns. Fólk er af ótal kynjum. Hvert kyn er síðan hægt að margfalda með nokkrum mögulegum kynhneigðum. Sé öllum blætunum bætt inn í jöfnuna verða möguleikarnir nánast óendanlegir og þessi flóra eins og fallegt beð í Lystigarðinum. Það er dásamlegur vitnisburður um margbreytileika mannskepnunnar.
Nú er svo komið að ég sem gagnkynhneigður karl er orðinn í algjörum minnihluta í hópi kollega í mínum heimabæ. Það er bæði einmanalegt og óspennandi hlutskipti enda verður sífellt algengara að fólk finni hjá sér þörf til að hughreysta mig vegna minnar daufu tilveru.
Um helgina hitti ég gamlan vin minn sem vék að mér nokkrum vel völdum huggunarorðum en spurði svo hvort það væri ekki sterkur leikur í ljósi nýjasta útspils Fræðsludeildar þjóðkirkjunnar að ég skellti mér í brjóstastækkun.
-Svavar Alfreð Jónsson