30. október - 6. nóember - Tbl 44
Tillaga fulltrúa Framsóknar í bæjarstjórn um símanotkun í grunnskólum
„Þessa dagana er heilmikil umræða um áhrif snjalltækni á börnin okkar en það sem mér finnst skipta mestu máli er að við fræðum börnin okkar um virkni þessara miðla og að við kennum þeim að horfa á innihald þeirra með gagnrýnum augum,“ segir Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Framsóknarflokks í bæjarstjórn Akureyrar.
Hún ásamt Gunnari Má Gunnarssyni, X-B lagði fram tillögu á bæjarstjórnarfundi í vikunni um að fræðslu- og lýðheilsuráði verði falið í samstarfi við ungmennaráð og fulltrúum skólasamfélagsins, skólastjórnendum, kennurum og nemendaráðum grunnskóla, að setja reglur um notkun síma í grunnskólum Akureyrarbæjar. Reglurnar munu taka gildi í síðasta lagi um næstu áramót og gilda þar til mennta- og barnamálaráðherra hefur lokið vinnu við mótun reglna um notkun síma í grunnskólum landsins.
Erum að fóta okkur í nýjum stafrænum heimi
„Það þarf að auka fræðslu um óbeina markaðssetningu, vöruinnskot, áhrifavalda-markaðsetningu, bergmálshelli, falsfréttir, hvernig markaðsskilaboð elta okkur á miðlunum og síðast en ekki síst um það hvernig viðskiptamódel samskiptamiðla virka. Auðvitað er óskastaðan sú að foreldrar ræði þessi mál við börnin sín en við, hinn almenni íbúi, erum einnig að fóta okkur í nýjum stafrænum heimi,“ segir Sunna Hlín. Tæknin sé ekki að fara neitt um sú um margt gagnleg, hún hafi vissulega sínar jákvæðu hliðar, „en við verðum að vera upplýstir neytendur hennar og fræða börnin okkar á þann hátt að þau skilji. Til þess treysti ég fullkomlega forvarnafulltrúum Akureyrabæjar, þau ná vel til barna okkar og eru með puttann á púlsinum en þau þurfa, alveg eins og við hin, að fræðast líka og hafa möguleika á endurmenntun í þessum síbreytilegu fræðum.“
Skilaboðin frá pólitíkinni um aukna áherslu á starfrænt læsi þurfa að hennar mati að vera skýr og tryggja þarf þekkingu og umhverfi til þess að sinna því. „Eflum stafrænt læsi en pössum um leið að börnin okkar upplifi líka umhverfi án áreitis í námi og leik og mótum reglur um símanotkun í grunnskólum í viðtæku samráði,“ segir hún.