Til hamingju með Vaðlaheiðargöng
Það var eftirminnileg og einstaklega ánægjuleg stund þegar Vaðlaheiðargöng voru formlega tekin í notkun á dögunum. Samstaðan og ánægjan á svæðinu endurspeglaðist í mikilli og almennri þátttöku í fjölbreyttum atburðum á opnunardaginn. Forustufólk úr sveitarstjórnum, atvinnulífi og opinberri þjónustu úr Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og víðar að fjölmennti og gleðin skein af hverju andliti. Engin heyrðist tuða yfir gjaldtöku í göngunum enda öllum ljóst að án hennar væri þessi gríðarlega samgöngubót ekki orðin að veruleika.
Nú þarf ekki lengur að flytja fram rök fyrir mikilvægi þess að ráðast í gerð ganganna. þau eru orðin að veruleika og komin í gagnið. það verður hér, eins og yfirleitt endranær, reynslan sem mun reynast besti dómarinn. Og kem ég þá að þeim skilaboðum sem mér eru efst í huga til íbúa svæðisins á þessum tímamótum. þau eru reyndar ekki ný úr mínum munni. Svipuð orð hafði ég í ávarpi til Vestfirðinga þegar þeir fengu sína miklu samgöngubót með Vestfjarðagöngum sem leystu af hólmi hinar illvígu Breiðadals- og Botnsheiðar. Skilaboðin eru, „nú eiga heimamenn leik“.
það er nú í höndum þeirra sem byggja þetta svæði, og auðvitað með stuðningi allra sem að þeirra hagsmunamálum vinna, að nýta þau tækifæri og möguleika sem tilkoma ganganna skapar til sóknar.
Til slíkrar öflugrar framfarasóknar hafa nú Eyjafjörður og þingeyjarsýslur, mið Norðurland og Norðausturland, betri forsendur en nokkru sinni fyrr. Vaðlaheiðargöng, atvinnuuppbygging á Húsavík og í Þingeyjarsýslu, Héðinsfjarðargöng og uppbygging Norðausturleiðarinnar, Dettifossvegur þegar hann klárast á næstu tveimur árum, þetta og margt fleira hefur gjörbreytt forsendum til hins betra á stóru svæði. Sjúkrahúsið og Háskólinn á Akureyri, aflið í sameinaðri Heilbrigðisstofnun Norðurlands, framhaldsskólarnir, menningarstofnanir að ógleymdu sterku atvinnulífi þar sem öflugustu fyrirtækin hafa sum hver fjárfest eða eru að fjárfesta fyrir milljarða. þetta og margt fleira leggur sterkan grunn.
Undirritaður, sem hefur hrærst í stjórnmálum í vel 40 ár og þar af á þingi sem fulltrúi svæðisins í tæp 36, hefur ekki í annan tíma verið bjartsýnni fyrir þess hönd. Ekki svo að skilja að áfram séu ekki krefjandi verkefni og brýn hagsmunamál fyrir að berjast. Uppbygging Akureyrarflugvallar sem alvöru millilandaflugvallar og varaflugvallar um leið er í þeim efnum mikið forgangsmál. Með slíkri uppbyggingu rotast margar flugur í einu höggi. Sterkari grunnur verður lagður fyrir heilsárs ferðamennsku, mikilvægasta flugsamgöngumannvirki utan Suð-Vesturhornsins og innanlandsflugið eflist, flugöryggi eykst, álag af ferðamönnum dreifist betur o.s.frv. Það að standa vörð um innlenda landbúnaðarframleiðslu og tengdan matvælaiðnað og þjónustu er einnig gríðarlegt hagsmunamál svæðisins. Vægi þess geira er þungt í atvinnulífi og byggð.
Auðvitað gæti ég lengt listann hér að ofan umtalsvert. Nefnt raforkudreifingu, ónýta tengivegi og brýr o.s.frv., en læt staðar numið. Það er mín bjargföst sannfæring að Eyjafjörður og Þingeyjarsýsla hafi nú allar forsendur til að verða eitt helsta vaxtarsvæði landsins á komandi árum með jákvæðum áhrifum á aðliggjandi byggðarlög og svæði til beggja handa. Látum það verða að veruleika og að því marki sem Vaðlaheiðargöng eiga sinn þátt í því var þá ekki til einskis barist.
-Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis