Þúsundir á Akureyri vegna fótboltamóta
N1-fótboltamót drengja var sett á hádegi í dag og stendur fram á laugardag og Pollamót Samskipa fer fram á föstudag og laugardag. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Talið er að um 10.000 manns séu í bænum vegna N1-mótsins, þar af um 2.000 keppendur og eru hvorki fleiri né færri en 911 leikir á dagskrá næstu daga. Vegna framkvæmda á KA-svæðinu hefur þrengt nokkuð að keppendum þar og teygir mótið því anga sína einnig yfir á gamla Akureyrarvöllinn og Þórsvöllinn.
Pollamót Samskipa hefst síðan á föstudag á Þórssvæðinu þar sem bæði konur og karlar etja kappi í spennandi leikjum. Á Pollamótinu eru 66 lið skráð til keppni.
Það má því búast við miklum mannfjölda á Akureyri næstu daga og þótt það sé kuldalegt um að litast í dag þá mun rætast úr veðrinu. Spáð er hlýnandi veðri og á föstudag og laugardag verður komin brakandi blíða ef spár ganga eftir.