Þú átt barnið, svo taktu ábyrgð!

Ég las grein eftir Anni Mattihiesen þingmann á danska þinginu „Det er dit barn, så tag ansvar!“ og hugsaði með mér, þetta á erindi til íslenskra foreldra rétt eins og danskra. Samfélögin eru um margt lík og við berum okkur gjarnan saman við frændur vora Dani.

Anni segir að ákvörðunin um að eiga barn sé foreldranna, ekki samfélagsins, og uppeldi og ábygð sé þeirra. Þegar ákvörðun um að eiga barn sé tekin fylgir því ábyrgð. Hún bendir á að það sé foreldranna að finna út hvernig heimilislífið gangi fyrir sig og hvernig það hangir allt saman. Forgangsröðun verkefna á að vera barni í hag og samvistir við barnið ætti að setja í forgang. Allt of mörgum börnum í Danmörku er plantað fyrir framan viðtæki, snjalltæki eða spjaldtölvu þegar heim er komið eftir vinnudag og dagsviðveru á leikskóla/grunnskóla. Sömu sögu má ábyggilega segja um börn hér á landi. Tel að íslenskir foreldrar séu að því leyti ekki öðruvísi en danskir foreldrar.

Anni vitnar í danska rannsókn, um jafnvægi milli heimilislífs og atvinnu, sem sýnir að um helmingur leikskólabarna hafa mætt veik í leikskólann. Rannsóknin sýnir líka að foreldrar hafa mikið að gera og vegna anna þeirra þurfa börnin alltaf að flýta sér og það sé ekki notalegt að sögn barnanna sem tóku þátt í rannsókninni.

Þegar foreldrar upplifa streitu eða hafa á tilfinningunni að þurfa í sífellu að ná hinu og þessu smitar það yfir á barnið. Þegar svo er komið fyrir foreldrum skamma þau barnið oftar en ella. Slíkt hefur slæm áhrif á barn og því líður verr en þeim börnum sem eru ekki skömmuð eins oft. Anni segir að með rannsókninni fylgi ýmis ráð til að mæta vandanum þar sem stjórnvöld geti gripið inn í. Þá hringja viðvörunarbjöllurnar. Hún segist vilja sjá meiri ábyrgð foreldra, því þau velja að eiga barn, það sé ekki á vegum stjórnvalda. Því fylgir ábyrgð að setja barn í heiminn.

Anni segir það hlutverk foreldra að aga barn sitt og kenna því að segja, takk, afsakið og bjóða góðan daginn. Það er líka hlutverk foreldra að kenna barni sínu heiðarleika, að ljúga ekki og stela, mæta á réttum tíma og bera virðingu fyrir öðrum. Að tala ekki með fullan munninn, henda ekki rusli á gólfið og úti í náttúrunni og segir Anni þetta nokkur dæmi, af mörgum, um það sem foreldrar eiga að kenna barni sínu og ganga eftir að þau fylgi þessum almennu reglum.

Sjálf get ég bætt við að foreldrar bera ábyrgð á námi barnsins þegar í grunnskólann er komið, hegðun, umgengni þess og framkomu við starfsfólk skóla og aðra nemendur. Allt eru þetta þættir sem foreldrar eiga að kenna barni sínu, það er ekki verkefni grunnskólakennara.

Allt það sem foreldrar vilja ná í hinu daglega lífi bitnar á barninu, fullt starf, yfirvinna, ræktin, fara út með vinum, kaupa inn, passa hús og garð, kanna tölvupóst, senda smáskilaboð, vera á snjáldursíðunni og allt annað sem fólk tekur sér fyrir hendur. Það er mikilvægara segir Anni að sleppa einhverjum af þessum þáttum í ákveðinn tíma og vera til staðar fyrir barnið.

Ég er nokkuð sannfærð um að samfélagsmiðlar taki mikinn tíma frá foreldrum rétt eins og hjá unglingum. Foreldrar eru fyrirmynd og börn gera það sem fyrir þeim er haft. Hugsið ykkur um áður en þið takið tækin framyfir barnið ykkar.

Mundu, þú átt barnið og því fylgir ábyrgð segir Anni. Og undir það má taka. Hvert barn upplifir æskuár einu sinni og því er mikilvægt að foreldrar haldi rétt á spilunum og séu til staðar fyrir barnið.

Höfundur er grunnskólakennari. Greinin er að mestu byggð á skrifum Anni Mattihiesen.

Nýjast