Þrjár sýningar opnaðar á föstudagskvöld
Föstudagskvöldið 2. júní kl. 20 verða þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Samsýning norðlenskra myndlistarmanna – Afmæli, Ásmundur Ásmundsson – Myrkvi, og Inga Lísa Middleton – Hafið á öld mannsins. Boðið verður upp á listamannaspjall með Ásmundi og Ingu Lísu kl. 21 og er stjórnandi Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins.
Afmæli
Þetta er í fimmta sinn sem sýning á verkum norðlenskra listamanna er haldin í Listasafninu á Akureyri. Sýningin er tvíæringur og er að þessu sinni unnið út frá þemanu afmæli, sem er vísun í 30 ára afmæli Listasafnsins en jafnframt opið fyrir alls konar túlkunum listamanna.
Dómnefnd velur verk úr innsendum tillögum listamanna sem búa á Norðurlandi eða hafa sérstaka tengingu við svæðið. Gefin er út sýningarskrá á íslensku og ensku og er áhugavert að bera saman sýningarskrár fyrri sýninga til að sjá hvaða þróun er í verkum norðlenskra listamanna. Markmiðið er vissulega að sýna þá fjölbreytni í efnistökum, aðferðum og hugmyndum sem listamenn af svæðinu eru að fást við hverju sinni.
Sýningunni Afmæli er ætlað að gefa innsýn í þá fjölbreyttu flóru myndlistar sem tengist Norðurlandi og vekja umræður um stöðu norðlenskra listamanna og myndlistar almennt. Þessi tvíæringur getur verið grunnur rannsókna og sköpunar á sviði myndlistar og um leið hvatning og tækifæri. Safnasjóður styrkir sýninguna.
Þátttakendur: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Aðalsteinn Þórsson, Andrea Weber, Auður Lóa Guðnadóttir, Auður Ómarsdóttir, Baldvin Ringsted, Bergþór Morthens, Björg Eiríksdóttir, Erwin van der Werve, Freyja Reynisdóttir, Hekla Björt Helgadóttir, Hjördis Frímann, Hólmfríður Vídalín Arngrímsdóttir, Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, J. Pasila, Jonna Jónborg Sigurðardóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Jónína Björg Helgadóttir, Rósa Kristín Júlíusdóttir, Sigurður Mar, Stefán Boulter, Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir, Þuríður Helga Kristjánsdóttir. Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.
Myrkvi
Hin alltumlykjandi goðsaga liggur eins og mara yfir samtímanum og umvefur núið og hið liðna. Hún mótar hugsanir og vekur þrár og þýðir allt sem býr í hlutunum, myndunum og tungumálinu í kringum okkur yfir á merkingarbært form. Yfirvöld og stórfyrirtæki nota myndmál til að viðhalda valdastrúktúrum og búa í haginn fyrir framtíðina. Háþróaður afþreyingar- og auglýsingaiðnaðurinn framleiðir myndir til að koma skilaboðum á framfæri og móta einstaklinginn á ísmeygilegan hátt.
Í verkum sínum tileinkar Ásmundur Ásmundsson sér myndmál samtímans og umbreytir því til að skapa sinn persónulega myndheim, sína eigin goðsögu. Á sama tíma varpar hann ljósi á það sem liggur á bak við stýrandi afl myndmálsins og afhjúpar hugmyndafræði og valdastrúktúra sem liggja til grundvallar okkar samfélagsgerð. Ásmundur vinnur með ýmsa miðla í sinni listsköpun og hefur haldið fjölda sýninga á þrjátíu ára ferli. Hann hefur jafnframt skrifað margar af greinum fyrir tímarit og blöð, haldið fyrirlestra og framið gjörninga.
Hafið á öld mannsins
Svifþörungar eru smæstu lífverur hafsins. Þeir framleiða allt að 50% alls súrefnis, auk þess að binda um 40% af öllum koltvísýringi sem leystur er úr læðingi. Þar sem hvalir fyrirfinnast er einnig að finna þéttustu breiður svifþörunga, því úrgangur hvala inniheldur þau járn og nítröt sem þörungarnir þrífast á. Þetta merkilega samspil á milli smæstu og stærstu lífvera jarðar er ein af úrlausnum náttúrunnar til að takast á við loftslagsvána.
Milljónir tonna af plasti enda árlega í hafinu. Það hefur skaðleg áhrif á hvali sem gleypa það í æ meira magni og örplast getur hamlað ljóstillífun og vexti þörunga. Ef þörungar og hvalir hverfa, þá er hætt við að mannkynið hverfi líka.
Inga Lísa Middleton stundaði ljósmyndanám við UCA Farnham og Royal College of Art í Bretlandi. Ljósmyndaverk hennar hafa verið sýnd víða um heim, þar á meðal í London, París, Tókýó, Kaupmannahöfn og Reykjavík.