Þrælahald!!!

Hjól atvinnulífsins hafa snúist hratt í nokkurn tíma, meðal annars með þeim afleiðingum að einstaklingar frá öðrum þjóðlöndum hafa komið hingað til að starfa, bæði með ráðningarsamband og sem sjálfboðaliðar. Ef kjarasamningar eru ekki virtir, gefur það augaleið að slíkt grefur undan starfsemi annarra fyrirtækja og skekkir samkeppnisstöðu þeirra sem eru með sín mál á hreinu. Heilbrigt atvinnulíf byggist á að farið sé eftir lögum og reglum.

Of algengt er að íslensk fyrirtæki auglýsi í útlöndum eftir sjálfboðalið­um, sem oftar en ekki er ætlað að ganga í margvísleg störf í hinum ýmsu greinum atvinnulífsins.

Aðilum vinnumarkaðarins ber skylda til að fara eftir réttum leikreglum á vinnumarkaði. Um þetta hljótum við öll að vera sammála.

Í september sl. undirrituðu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins sameiginlega yfirlýsingu vegna sjálfboðaliða. Þar var lögð áhersla á að það sé andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja. Dæmi eru um að sjálfboðaliðar vinni 10 til 12 tíma á dag 7 daga vikunnar, og fái fyrir það fæði og húsnæði. Þetta er auðvitað þrælahald.

Þetta gengur heldur ekki

Því miður er víða pottur brotinn þegar laun og réttindi erlends starfsfólks eru annars vegar, eins og tíðar fréttir af slíkum málum bera með sér. Algengt er að launin séu langt undir gildandi kjarasamningum, auk þess sem sjálfsögð og lögboðin réttindi eru gróflega brotin á viðkomandi.

Eining-Iðja hefur fengist við mörg slík brot á undanförnum misserum, og fer þeim því miður fjölgandi. Oft eru ekki gerðir ráðningarsamningar, sem þýðir að starfsfólk er algjörlega í lausu lofti. Þegar upp koma álitamál gilda þó að sjálfsögðu almennir kjarasamningar.

Þetta gengur ekki, allir hljóta að vera sammála um það.

Viljum við skipta út launafólki, sem sinnt hefur þessum störfum, og ráða í staðinn sjálfboðaliða með engin réttindi?

Leggðu okkur lið

Tilgangur Einingar-Iðju er meðal annars að sameina allt launafólk sem starfar á félagssvæðinu og vinna að hagsmunamálum félagsmanna. Vinnumarkaðurinn verður að gera greinarmun á sjálfboðaliðum sem vinna við efnahagslega starfsemi annars vegar og sjálfboðaliðum í samfélagslegri vinnu hins vegar.

Eining-Iðja hvetur fólk til að láta félagið vita ef það hefur orðið vart við sjálfboðaliða. Félagið mun í framhaldinu kanna hvort störf þeirra rúmast innan ramma laganna.

Algjör trúnaður ríkir að sjálfsögðu um allar slíkar ábendingar.

„How do you like Iceland,“ eru útlendingar gjarnan spurðir af okkur Íslendingum.

Við viljum auðvitað að sem flestir svari „very well.“ Stöndum vörð um launafólk og virðum mannréttindi. Það er allra hagur.

Höfundur er formaður Einingar-Iðju

Nýjast