„Þörfin er svo sannarlega til staðar“

Karen Elsu Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Aflinu á Húsavík. Mynd/epe
Karen Elsu Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Aflinu á Húsavík. Mynd/epe

Aflið samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi fögnuðu 20 ára afmæli á þessu ári. Samtökin hafa vaxið á undanförnum árum enda ákall í samfélaginu eftir bættri þjónustu við þolendur ofbeldis. Nú hafa samtökin enn bætt í þjónustu sína og bjóða nú upp á ráðgjafaviðtöl á Húsavík. Vikublaðið ræddi við Karen Elsu Bjarnadóttur ráðgjafa samtakanna á Húsavík.

Aflið eru samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi sem voru stofnuð á Akureyri árið 2002 í framhaldi af tilraunastarfsemi Stígamóta og Jafnréttisstofu þar sem í ljós kom mikil þörf fyrir samtök af þessu tagi. Stofnendur Aflsins voru þær Olga Ellen Einarsdóttir, Laufey H. Svavarsdóttir, Anna María Hjálmarsdóttir, Rannveig Guðnadóttir, Sigurlaug Una Hreinsdóttir, Hólmfríður Lilja Bjarkar Jónsdóttir og Sæunn Guðmundsdóttir.

Bergrún Sigurðardóttir, sem þá var starfskona Stígamóta og síðar ein af stofnendum Drekaslóðar, var þeim innan handar við stofnun samtakanna og við að taka fyrstu skrefin.

Starfsemin byggir á forsendum þolenda kynferðislegs ofbeldis og/eða heimilisofbeldis. Frá upphafi hefur Aflið vaxið jafnt og þétt og skjólstæðingum og viðtölum hefur fjölgað ár frá ári. 

 Þörfin til staðar

Karen segir verkefnið á Húsavík fara vel af stað en fyrstu viðtölin fóru fram í byrjun september. „Þörfin er svo sannarlega til staðar. Ég stakk upp á því þegar ég flutti aftur norður að opna útibú á Húsavík þar sem ég bý og því var vel tekið. Þannig getum við þjónustað betur íbúa Norðurþings og nágrannasveitarfélaga,“ segir Karen sem býr að víðtækri reynslu frá Aflinnu, Stígamótum og BUGL. 

Þegar Karen hafði lokið grunnnámi í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2017 hóf hún störf sem ráðgjafi á Aflinu á Akureyri áður en hún hélt til Reykjavíkur í mastersnám við Háskóla Íslands og stundaði verknám á BUGL, barna og unglingageðdeild. „Þá þurfti ég að kveðja Aflið en eftir að ég útskrifaðist sem sálfræðingur og búin að fá smá reynslu á BUGL, þá opnaðist staða á Stígamótum þannig að ég starfaði þar áður en ég flutti norður aftur,“ segir Karen en hún starfaði í tvö ár á BUGL áður en henni bauðst staða á Stígamótum.

Þjónusta allt Norður- og Austurland

Á Akureyri starfa fjórir ráðgjafar frá  Aflinu á Akureyri ásamt Karen sem starfar á Húsavík en hún kemur einn dag í viku til Akureyrar til að sinna skjólstæðingum. Auk þess hafa ráðgjafar frá Aflinu veitt viðtöl í Múlaþingi og Fjarðarbyggð undanfarið ár en skrifað var undir formlegan samning við sveitarfélögin í september um reglubundna þjónustu við þolendur ofbeldis á Austurlandi.

Þess ber þó að geta að þjónustan sem Aflið veitir er á breiðari grunni og er ekki aðeins fyrri einstaklinga sem hafa orðið fyrir heimilis- og kynferðisofbeldi. Til Aflsins leitar einnig fólk sem hefur orðið fyrir einelti í æsku svo dæmis séu tekin.

Karen segir starfsemina fara vel af stað á Húsavík og ljóst að þörfin sé til staðar, en tekur fram að fólk sé enn að átta sig á því að þessi þjónusta sé í boði. „Fólk hefur leitað hingað til okkar, sérstaklega í byrjun en ég held að það taki líka smá tíma fyrir fólk að átta sig á því að þjónustan sé í boði.  Við bjóðum upp á einstaklingsviðtöl, skjólstæðingum okkar að kostnaðarlausu en svo erum við líka með hópaúrræði inn á milli. Einnig bjóðum við upp á viðtöl fyrir aðstandendur,“ útskýrir Karen.

Ráðgjöf á jafningjagrundvelli

Hún segir jafnframt að vinnan hjá Aflinu sé ekki eiginleg meðferð heldur felist hún í því að gera einstaklinga meðvitaða um eigin styrk og aðstoða þá við að nota hann til að breyta eigin lífi og að sjá ofbeldið í félagslegu samhengi en ekki sem persónulega vankanta. „Við lítum svo á að þau sem hingað leita séu sérfræðingarnir í eigin lífi, enda þekkir engin betur afleiðingar ofbeldis en sá sem hefur verið beittur því,“ segir Karen og bætir við að viðtölin séu á jafningjagrundvelli þar sem ráðgjafar Aflsins eigi það sammerkt að búa að eigin reynslu af ofbeldi. „Þar sem um sjálfshjálparstarf er að ræða ber hver einstaklingur ábyrgð á sinni vinnu en fær stuðning og samkennd frá öðrum manneskjum með sömu reynslu.“

Í Covid heimsfaraldrinum var mikið í umræðunni að einangrunin sem ástandið skapaði gæti leitt til aukningu í tíðni heimilisofbeldis. Karen tekur undir það en bendir jafnframt á að afleiðingarna komi yfirleitt ekki í ljós fyrr en löngu síðar. „Það er reynsla okkar að fólk sé síður að leita sér hjálpar þegar það er í miðjum storminum. Það er frekar þegar fólk er komið út úr aðstæðum að það fer að takast á við afleiðingarnar. Það getur verið mörgum árum eftir að ofbeldið átti sér stað,“ segir Karen að lokum.

Hægt er að hafa samband við Aflið með því að senda tölvupóst á aflidakureyri@gmail.com eða í síma 461-5959.

Nýjast