20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Þingsályktunartillaga um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri
Njáll Trausti Friðbertsson er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem hann ásamt 16 öðrum þingmönnum lögðu fram í gær á Alþingi um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri.
Í ályktun þessari segir m.a ,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að Landhelgisgæslan komi upp fastri starfsstöð fyrir eina af þyrlum sínum á Akureyri í samstarfi við hagaðila á Akureyri.“
Í greinargerð sem fylgir með ályktuninni segir ,, Með tillögu þessari er lagt til að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar hafi starfsstöð á Akureyri allt árið um kring. Auk þess sem Akureyri er miðsvæðis á landinu, er augljós tenging við sjúkraflugið í landinu sem er staðsett á Akureyri. Þar geta læknar á Akureyri mannað hluta þyrluáhafnar eins og nú er reyndin í tengslum við sjúkraflugið. Í þessu samhengi er rétt að benda á að í fjölmiðlum hefur komið fram að tveir af sex þyrluflugstjórum gæslunnar búa fyrir norðan. Talið er að árlegur rekstrarkostnaður þyrlu á Akureyri sé um 500 millj. kr. og að uppbygging flugskýlis á Akureyrarflugvelli kosti 200–300 millj. kr. Nú þegar eru til staðar flugvirkjar sem geta sinnt viðhaldi auk þess sem starfsmenn í heilbrigðisstofnunum, slökkviliði og fleiri sem geta nýst starfseminni.
Hlutfall þyrluflugs hefur verið um 15% af heildarsjúkraflugi í landinu. Mýflug hefur sinnt um 85% af sjúkrafluginu með sínum tveimur flugvélum. Meðfylgjandi mynd sýnir hvernig sjúkraflugið dreifðist um landið árið 2015 og hvert þyrlur gæslunnar sóttu sjúklinga. Það sem myndin sýnir er hversu slæma eða lélega þjónustu hægt er að veita á austurhluta landsins þegar sjúkraflugi með þyrlum er einungis sinnt frá Reykjavíkurflugvelli.
Fjarlægðirnar eru miklar og veðuraðstæður með þeim hætti að til að sinna sjúkraflutningum á austurhluta landsins með sjúkraþyrlum, í þeim tilfellum þar sem erfitt er að koma sjúkraflugi við, yrði nauðsynlegt að staðsetja þyrlu á svæðinu. Það er ekki langt síðan að sjöttu þyrluáhöfninni var bætt við hjá Landhelgisgæslunni sem þýðir að það eru tvær áhafnir á vakt um tvo þriðju hluta ársins. Með því að bæta við sjöundu þyrluáhöfninni væru tvær áhafnir til reiðu 95% af árinu. Það er mikilvægt skref sem nauðsynlegt er að stíga til þess að efla björgunargetu þyrluflugsveitar Landhelgisgæslunnar.“
Bjartsýnn á framhaldið
,,Ég er bjartsýnn á að við náum góðri niðurstöðu í málinu á þinginu í vetur. Viðbrögð við málinu hafa verið mjög jákvæð og almennt góður skilningur meðal þingmanna á mikilvægi málsins og því að efla getu Landhelgisgæslunnar á Norður- og Austurlandi og á miðunum þar útaf". ,,Það er svo sem ekki mikið sem þarf að gerast til að koma upp starfstöð á Akureyri. Mögulega er hægt að komast ínn í eitthvað af þeim flugskýlum sem eru nú þegar. Hinn möguleiki er að það verði byggt flugskýli fyrir Gæsluna við nýja flughlaðið sem verið er að taka í notkun á Akureyrarflugvelli. Kostnaður við nýtt flugskýli gæti verið 200-300 milljónir. Í dag eru sex áhafnir á þyrlunum. Við þyrftum væntanlega að bæta við sjöundu áhöfninni og flytja síðan eina af þeim sex áhöfnum sem nú er þegar norður. Áætlaður kostnaður við eina áhöfn er um 400 milljónir. Hér er rétt að hafa í huga að innviðirnir á Akureyri og Akureyrarflugvelli eru það öflugir í dag að ég tel að þetta séu allt hlutir sem við getum leyst með tillögulega einföldum hætti. Þörfin fyrir þessa þjónustu er augljós og nú er komið að því að klára þetta mál" sagði Njáll Trausti í samtalið við vefinn í morgun.
,,Umræðan í þingsal var góð og mikill stuðningur og vilji meðal þingmanna að málið hafi góðan framgang í þinginu. Því er ég bjartsýnn á framhaldið“ bætti Njáll Trausti Friðbertsson við að endingu.