Þingeyjarsveit Tækifæri á að fjölga óstaðbundnum störfum
Mikil tækifæri í fjölgun óstaðbundinna starfa eru fyrir hendi í Þingeyjarsveit. Góð aðstaða er til staðar í Gíg í Mývatnssveit og nýju stjórnsýsluhúsi á Laugum. Einnig er aðstaða fyrir óstaðbundin störf á Stórutjörnum.
Byggðarráð Þingeyjarsveitar fagnar þeirri áherslustjórnvalda að fjölga eigi staðbundnum störfum á landsbyggðinni. Í tilkynningu frá stjórnvöldum kemur fram að ríkisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu geti sót um styrki til að ráða í óstaðbundin störf á þeirra vegum úti á landi.
Öflugur kjarni opinberra stofnana er í Gíg í Mývatnssveit og mikil tækifæri til að fjölga störfum þar segir í bókun byggðaráðs og að það eigi við um fleiri staði í sveitarfélaginu, í nálægð við auðlindir og náttúru.
Ríkisstofnanir efli starfsemi sína í Þingeyjarsveit
Byggðaráð hvetur stofnanir ríkis á borð við Minjastofnun Íslands, Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafnið, Hagstofu Íslands, Íslenskar orkurannsóknir, Orkustofnun, Persónuvernd, Þjóðskrá svo eitthvað sé nefnt til að skoða þau tækifæri sem felast í óstaðbundnum störfum í Þingeyjarsveit. Einnig hvetur byggðarráð þær stofnanir sem þegar eru í sveitarfélaginu að nýta tækifærið og efla sína starfsemi í Þingeyjarsveit.
Byggðarráð hvetur einnig opinber hlutafélög til að skoða möguleika á að staðsetja störf í Þingeyjarsveit.