Þetta gamla fólk!
Einn harðasti verkalýðssinni Íslands, Jón Ingimarsson, kom eitt sinn að máli við Stefán Jónsson, alþingismann og flokksbróður í Alþýðubandalaginu, og áminnti hann um að standa vörð um hagsmuni fátækra Íslendinga.
Áttu þá við iðnverkafólk, vildi Stefán fá að vita.
„Já,“ svaraði Jón Ingimarsson, „og þó er fjölmennur hópur sem er enn þá ver settur og Alþýðubandalagið á enn ríkari skyldur við. Það er gamla fólkið og öryrkjarnir.“
Allar götur frá því ég man eftir mér hafa stjórnmálamenn allra flokka tekið undir með Jóni Ingimarssyni. Kjör aldraðra þarf að bæta. Og hvað hefur gerst á liðnum áratugum? Í hnotskurn, ósköp lítið. Enn eru laun ellilífeyrisþega skert með óásættanlegum hætti á sama tíma og stefnt er að því að hækka lífeyristökualdur í 70 ár – „enda sýna rannsóknir að aldraðir sem stunda vinnu séu almennt heilsuhraustari og njóti meiri lífsgæða en þeir sem ekki eiga kost á því að stunda vinnu“, segir í opinberu plaggi úr ráðuneyti velferðarmála.
Núverandi alþingismenn þjóðarinnar stefna sem sagt að því að hækka ellilífeyrisaldur upp í sjötugt, meðal annars vegna þess að það hægir á öldrunarferlinu. En þangað til þessum sjötíu-ára áfanga er náð skal ellilífeyrisþegum, að minnsta kosti hinum snauðari, beinlínis refsað ef þeir voga sér út á vinnumarkaðinn.
En hvað er til ráða? Meðaltekjur ellilífeyrisþega eru sagðar rúmar 384 þúsund krónur á mánuði. Ekki lífvænleg innkoma það. Enn nöturlegri mynd blasir við þegar kafað er dýpra. Þá kemur í ljós að í febrúar síðastliðnum, þegar keisaranum hafði verið goldið sitt í formi skatta og tekjuskerðinga, voru 67% eldri borgara með tekjur á bilinu 200 til 280 þúsund krónur á mánuði. Þetta er árangurinn eftir áratugalangt streð stjórnmálamanna við að bæta hag aldraðra.
Er ekki orðið tímabært að þessir menn girði sig í brók og standi við loforð sem þeir hafa gefið elstu kynslóð þessa lands – og éta upp aftur og aftur, einkum fyrir kosningar, með þessari vægast sagt hörmulegu niðurstöðu sem þætti brottrekstrarsök á almennum vinnumarkaði.
Þörf er átaks sem felst einfaldlega í því að laun aldraðra verði skattlaus upp að þeim mörkum er teljast meðallaun í landinu hverju sinni. Þetta þarf að binda í þjóðarsáttmála því að löngu er orðið ljóst að pólitíkusum hættir til að misnota hvers konar tekjutengingar, borgaranum í óhag.
Nú kunna einhverjir að hvá en ég minni á að Alþingi hefur áður sett sérreglur um undanskot frá skatti. Á árum áður gat fólk sett til hliðar ákveðið hlutfall tekna sinna, skattfrjálst, til væntanlegra húsnæðiskaupa – sem var gott mál en drepið. Síðar tóku gildi reglur um skattfrelsi einstaklinga til kaupa á hlutabréfum fyrirtækja sem var kannski umdeilanlegra. Og nú eru í gildi reglur sem leyfa að ákveðið hlutfall lífeyrissparnaðar megi nota til að greiða niður húsnæðislán eða til kaupa á nýju. Upphæðin er skattfrjáls.
Að þessu sögðu hlýt ég að spyrja, er ekki orðið tímabært að við kjósum um gömul og ný loforð stjórnvalda til handa hinum ótrúlega þolinmóða og nægjusama hópi sem eru ellilífeyrisþegar þessa lands?
-Jón Hjaltason sagnfræðingur