Þekkingarnet Þingeyinga opnar frumkvöðlasetur og FAB-LAB

Samsett mynd
Samsett mynd

Framkvæmdir eru að hefjast við stækkun Þekkingarnets Þingeyinga (ÞÞ). Langanes ehf. hefur fest kaup á Hafnarstétt 1 af Steinsteypi ehf. en fyrir á Langanes núverandi húsæði ÞÞ að Hafnarstétt 3. Það er Bjarni Aðalgeirsson, fyrrum útgerðarmaður sem er maðurinn á bak við Langanes. Nú þegar hefur verið gerður langtíma leigusamningur við ÞÞ.

Óli Halldórs

 

„Í stuttu máli erum við að mynda eina heild úr núverandi húsnæði að Hafnarstétt 3 og yfir í neðri hæð Hvalasafnsins að hafnarstétt 1., með viðbyggingu á milli,“ segir Óli Halldórsson forstöðumaður ÞÞ.

 Bygging í skipulagsferli

Óli segir að verið sé að útfæra tengibyggingu á milli húsanna en það er í skipulagsfarvegi hjá Norðurþingi. Arnhildur Pálmadóttir arkítekt er að teikna tengibygginguna. „Úr verður ein heild þar sem gengið verður inn í tengibygginguna og úr verður 1000 fermetra húsnæði,“ segir Óli.

Atvinnusköpun í heimabyggð

Starfsemi ÞÞ mun aukast við breytingarnar en opnuð verður Fab-lab smiðja og frumkvöðlasetur en áður var þessi uppbygging fyrirhuguð í gamla frystihúsinu áður en samningar sigldu í strand við Norðlenska, eigendur frystihússins.

Þekkingarnetið heldur utan um Fab-lab smiðjuna og frumkvöðlasetrið sem er fjármagnað  í gegnum samstarfssamning við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið á grunni byggðaáætlunar. „Kjarni alls þess sem við erum að hugsa með þessa uppbyggingu er að búa til suðupott frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar sem býr til atvinnu fyrir nærsamfélagið. Strax í haust verður þetta orðinn ríflega 30 manna vinnustaður en við erum um 20 í dag,“ útskýrir Óli og bætir við að SSNE hafi óskað eftir því að fá aðstöðu í nýju húsnæði fyrir sitt starfsfólk. „Við höfum orðið við því.“

Hvað er  FAB-LAB?

Fab- lab smiðja er þekkt hugtak af tiltekinni gerð af frumkvöðlatækni smiðju. Um er að ræða vinnustofu með ákveðinni tegund af tækjabúnaði. „Hugsunin er að þarna komi inn allt frá skólabörnum á grunn- og framhaldsskólastigi og upp í fyrirtæki og frumkvöðla. Þessir aðilar koma með sínar hugmyndir eða verkefni og geta verið með sínar vinnustofur undir handleiðslu. Þarna verður aðgengi að þrívíddarprentara, laserskurðarvél, vínylskera og allskonar smátölvum. Við erum búin að vera í samstarfi við menntamálaráðuneytið um að fá þetta viðurkennt sem eina af Fab-lab stöðvunum á Íslandi. Fab-lab Húsavík er sem sagt að verða að veruleika,“ segir Óli

Hvalasafnið á enn hluta að neðri hæðinni og munu leigja hann inn í þetta og verða hluti af vinnustað ÞÞ með sína starfsemi.

Stefna að opnun í haust

Að sögn Óla er stefnt á að hluti neðri hæðar Hafnarstéttar 1 verði tekinn í notkun strax í haust undir Fab- Lab smiðjuna. „Við erum að vinna að því að taka í notkun hvalasafnshluta neðri hæðarinnar strax í haust. Það er gert ráð fyrir að byggingartími tengibyggingarinnar taki nokkuð skamman tíma. Þetta er í glereiningum sem verða að miklu leiti forbyggðar, þannig að þetta er spurning um að ganga frá sökkli og að setja þetta saman þannig að í nóvember gæti þetta staðir klárt,“ segir hann en bætir við að stefnt sé að því að Fab-lab smiðjan verði komin í notkun fyrir þann tíma.

Nýjast