Þegar ekki er hægt að versla í heimabyggð

Egill P. Egilsson
Egill P. Egilsson

Leiðara haus

Það dró til tíðinda á dögunum þegar Húsasmiðjan tilkynnti um að verslanir félagsins á Húsavík og Dalvík myndu sameinast nýrri og stærri verslun  við Freyjunes á Akureyri.

Óhætt er að segja að þetta útspil hafi fallið í grýttan farveg hjá Húsavíkingum og þeir gefa lítið fyrir sameiningartal Húsasmiðjunnar. Þarna sé einfaldlega verið að leggja niður þjónustu sem bæjarbúum þykir afar nauðsynleg.

Vikublaðið greindi frá því í mars á þessu ári að Húsasmiðjan hefði sagt upp húsaleigusamningi verslunarinnar. Svör frá forsvarsmönnum fyrirtækisins voru á þá leið að verið væri að endurskoða samningana en að það væru ekki komin nein plön um að loka versluninni, þó það væri vissulega ekki útilokað.

Dagsetningin á útrunnum húsaleigusamningi gaf þó ekki ástæðu til bjartsýni en hann rennur út á sama tíma og fyrirhugað er að opna nýju verslunina á Akureyri. Húsavíkingar sáu í gegn um þetta en reyndu þó að telja Húsasmiðjumönnum hughvarf. Þeir voru boðaðir á fund byggðarráðs Norðurþings og Framsýn stéttarfélag hefur reynt hvað það getur til að fá forsvarsmenn Húsasmiðjunnar til að halda verslunarrekstri áfram á Húsavík. Allt fyrir ekkert.

Hefði ekki verið heiðarlegra af Húsasmiðjunni að segja bara strax hvernig staðan var í mars. Að verslunin kæmi til með að loka, það trúir því engin að annað hafi staðið til. Þannig hafi a.m.k. mátt spara fólki tímann sem farið hefur í að berjast fyrir áframhaldandi rekstri verslunarinnar.

 Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir hversu alvarleg staðan er fyrir Húsavík og sveitarfélagið allt. Þetta þýðir ekki aðeins skerta þjónustu fyrir bæjarbúa; að nú þurfi þeir að aka með tilheyrandi kolefnisspori til Akureyrar í hvert sinn sem þá vantar skrúfupakka eða pallaefni. Þarna tapast störf sem eru litlu bæjarfélagi dýrmæt.

Sveitarfélagið er líka stærra en bara Húsavík. Nú lengist leiðin til muna fyrir íbúa austast í sveitarfélaginu. Fólk sem áður gat sótt þessa þjónustu til Húsavíkur og nýtt í ferðina í leiðinni til að kaupa aðra þjónustu. Nú fækkar enn ástæðunum fyrir þetta fólk til að stoppa á Húsavík, aðrar verslanir, veitingastaðir og aðrir þjónustu aðilar munu því einnig tapa á brotthvarfi Húsasmiðjunnar.

Og allt þetta kemur á saman tíma og Íslandspóstur hefur ákveðið að þjarma að landbyggðinni með viðurstyggilegum gjaldskrárhækkunum á bögglasendingar úti á landi en lækka verðin í höfuðborginni. Aldeilis dásamleg byggðastefna sem ríkið bíður okkur upp á. Húsvíkingar og nærsveitungar geta þó huggað sig við það að geta verslað í Bónus á sama verði og höfuðborgarbúar í sömu ferðinni og þeir sækja pallaefnið sitt í Byko á Akureyri.

Egill P. Egilsson

ritstjóri

Smellið hér gif

Nýjast