30. október - 6. nóember - Tbl 44
Þátttakendur og gestir ánægðir með framlag vísindafólksins okkar á Vísindavöku
„Það er svo nauðsynlegt að gera vísindi aðgengileg fyrir almenning” segir Þórhalla Sigurðardóttir, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri (HA) um þátttöku í Vísindavöku. „ Mér fannst mjög gaman að taka þátt, starfsfólk Vísindavöku og HA voru mér innan handar um allt sem ég þurfti og allt vel skipulagt. Ég myndi svo gjarnan vilja taka þátt aftur,” bætir hún við.
Háskólinn á Akureyri hefur sótt í sig veðrið undanfarin ár hvað varðar framgang rannsókna við háskólann og því afar gaman að taka þátt í Vísindavöku þetta árið svo hægt sé að tefla fram þó ekki sé nema hluta af því öfluga starfi sem fer fram við HA.
Rannsakendur komu, sáu og spjölluðu við gesti um sínar rannsóknir ásamt því að gestir fengu meðal annars að prófa lögreglubíl, að setja sig í spor kennara, sjá raunverulega hversu hreinar hendurnar eru og að setja upp skugga- og ljósa sýningar.
Háskólinn á Akureyri er í samstarfi við nokkur fyrirtæki sem vinna að þróun rannsókna og eitt af þeirra er fyrirtækið Arctic Therapeutics (AT) sem vinnur að þróun á lyfi við íslenskri arfgengri heilablæðingu og standa vonir til að sú þróun geti jafnvel aðstoðað við að þróa lyf við framgangi Alzheimer sjúkdómsins.
Olga Ýr Björgvinsdóttir, forstöðumaður rannsóknarstofa og Guðný Jónsdóttir tóku þátt í Vísindavöku með HA fyrir hönd AT. Til gamans má geta að þær hafa báðar lokið BS gráðu í líftækni frá HA og samhliða starfi sínu hjá AT stundar Guðný rannsóknartengt meistaranám í auðlindafræðum við Auðlindadeild HA. Hún vinnur að rannsóknum varðandi þróun á ofangreindu lyfi auk þess sem hún rannsakar leiðir til að draga úr einkennum lithimnubólgu sem er alvarlegur bólgusjúkdómur í auga sem getur valdið sjónskerðingu og jafnvel blindu.
„Það er mikilvægt fyrir þróunarfyrirtæki líkt og AT að taka þátt á vettvangi Vísindavöku til að auka sýnileika fyrirtækisins og aðgengi almennings að sérfræðingum okkar, geta svarað spurningum og sagt frá okkar vinnu,” segir Olga Ýr aðspurð um þeirra þátttöku í Vísindavöku.
Hún bætir einnig við „það var ótrúlega gaman að taka þátt í Vísindavöku. Það var gaman hversu margir komu og spjölluðu við okkur. Fólk á öllum aldri sýndi fyrirtækinu og starfsemi þess mikinn áhuga. Það sem kom okkur helst á óvart var hversu mikinn áhuga krakkar höfðu á verkefnunum okkar. Nokkrir krakkar sem við spjölluðum við stefndu sjálfir að því að verða vísindamenn og vildu ólmir fá að heyra hvernig þau komast þangað.”
,,Það sem kom okkur helst á óvart var hversu mikinn áhuga krakkar höfðu á verkefnunum okkar"
Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu undir heitinu Researchers’ Night. Skipuleggjendum HA vegna vökunnar langar að koma á framfæri þakklæti til Rannís fyrir að bjóða upp á þennan viðburð, gestum og gangandi fyrir áhugann og heimsóknina á svæðið okkar og við hlökkum til að sýna fleiri áhugaverðar rannsóknir að ári liðnu.