Þættir af einkennilegum mönnum
Föstudaginn 22. október næstkomandi kemur út á streymisveitum platan Þættir af einkennilegum mönnum. Á bak við hana stendur dúettinn Down & Out, sem var stofnaður af tveimur Húsvíkingum, Ármanni Guðmundssyni og Þorgeiri Tryggvasyni undir lok níunda áratugar síðustu aldar. Down & Out var ein af lykilsveitum í pönk- og nýbylgjubylgju sem þá reið yfir bæinn, þó sjálf væri hún órafmögnuð með öllu og hljómaði eins og þeir félagar hefðu hlustað of mikið á Spilverk Þjóðanna og misskilið það allt.
Nú, einum þremur áratugum síðar, drifu miðaldra meðlimirnir sig í stúdíó hjá félaga sínum úr Ljótu hálfvitunum, Baldri Ragnarssyni og afraksturinn er þetta verk. Ætlunin er að koma því líka út á föstu formi, vinyl og kassettu, og er söfnun fyrir þeirri útgáfu að ljúka á Karolina Fund núna um helgina. Þar er hægt að tryggja sér eintök, miða á útgáfutónleika og jafnvel einkakonsert með tvíeykinu, sem óhætt er að lofa að sé einstök upplifun.
HÉR kemstu inn á söfnunarsíðuna