Það verður ekki á þá logið Samherjamenn

Hjörleifur Hallgríms.
Hjörleifur Hallgríms.

Margt var um manninn á togarabryggjunni sl. laugardag 26. ágúst er fagnað var nýsmíðuðum togara í eigu Útgerðarfélags Akureyrar, sem er í eigu Samherja einu öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins. Forstjórinn, Þorsteinn Már Baldvinsson, bauð gesti velkomna og fór nokkrum orðum um skipið og að­ draganda að smíði og komu þess en bauð síðan gestum að þiggja veitingar í sal ÚA að athöfn lokinni.

Aðrir, sem töluðu við þessa athöfn voru Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, menntamálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, og að lokum Jóhannes Gunnar Bjarnason, formaður stjórnar Hafnasamlags Norðurlands. Þess má hér geta að togari þessi er einn af þremur, sem Samherji hefur verið að láta smíða  erlendis en auk hans eru það Björgúlfur frá Dalvík og Björg, sem er væntanleg heim í október nk. Allt eru þetta ísfisktogarar.

Kaldbakur skal hann heita

Þá var komið að aðalathöfninni en það var að skíra skipið formlega en það kom í hlut Kolbrúnar Ingólfsdóttur með hefðbundnum hætti með því að brjóta kampavínsflösku á kinnungi skipsins. Kolbrún er eiginkona Kristjáns Vilhelmssonar útgerðarstjóra Samherja en svo vill til að þessi Kaldbakur er þriðji togarinn sem ber þetta nafn og hafa hinir tveir verið farsæl og fengsæl skip. Til gamans má geta þess hér að Kaldbakur annar í röðinni var svokallaður Spánartogari og honum gaf nafnið frú Anna Kristjánsdóttir á sínum tíma en hún var tengdamóðir Kolbrúnar og móðir Kristjáns.

Annað langar mig til að komi hér fram að fyrir nákvæmlega 60 árum var sá er þetta skrifar skipverji á Harðbak EA 3, sem þá var undir styrkri og öruggri skipstjórn Vilhelms  Þorsteinssonar, sem síðar varð annar af forstjórum ÚA hér áður fyrr. Vilhelm var faðir Kristjáns, útgerðarstjóra Samherja og föðurbróðir Þorsteins Más forstjóra. Þetta eru skemmtilegar tengingar. Vakið hefur athygli nýstárlegt stefni nýja Kaldbaks en annar af skipstjórum hans Sigtryggur (Bóbó) sem sigldi skipinu heim ásamt hinum skipstjóranum og þeir tveir verða svo með Kaldbak áfram á veiðum, sagði að stefnið virkaði þannig að skipið klífur öldurnar átaka laust og miklu betur en ella, heggur ekki sem kallað er, fer einstaklega vel í sjó, veltur ekki og er mjög stöðugt. Sparnaður er sagður verða töluverður á olíueyðslunni.

Ný stólalyfta í Hlíðarfjall

Að athöfn lokinni á bryggjunni var gengið til veitinga í salarkynnum ÚA. Þegar þangað var komið kvaddi sér hljóðs Helga Steinunn Guðmundsdóttir formaður stjórnar Samherjasjóðsins og tikynnti um enn eina stó­ kostlega gjöf frá Samherja, sem fólst í afhendingu á hvorki meira né minna en stólalyftu með vírum og öllu tilheyrandi í Hlíðarfjall, sem kostaði „litlar“ 80 milljónir. Það er alveg magnað og verður seint fullþakkað hvað þeir Samherjafrændur Kristján og Þorsteinn Már hafa með stórum peningagjöfum af miklum rausnarskap stutt við og styrkt hinar ýmsu stofnanir hér á Akureyri. Má þar t.d. nefna íþrótta og æskulýðsstarfsemi ásamt fjölmörgum góð­ gerðarsamtökum, sem notið hafa góðs af þeim.

Að lokum

Öllu óskylt mál langar mig að nefna hér að lokum en það var fyrir ca. tveimur árum þegar lítt hæfur og óprúttinn seðlabankastjóri, Már Guð­ mundsson, réðst að Samherja að gjörsamlega ósekju og vændi um gjaldeyrissvik. Lét sækja bókhald fyrirtækisins og flytja í burt í bílförmum. Eftir langt ferli fannst auðvitað ekkert saknæmt og ekkert hafðist upp úr ótrúlegu frumhlaupi seðlabankastjórans en mest hafði mætt á Þorsteini Má forstjóra, sem þó stoð eftir keikur og óbugaður.

-Hjörleifur Hallgríms

Nýjast