„Það verða Mærudagar, það er alveg klárt"
Bæjarhátíðin Mærudagar á Húsavík fór ekki fram með formlegum hætti síðasta sumar af sóttvarnaástæðum vegna Covid-19 faraldursins. Margir hafa beðið spenntir eftir fréttum um það hvort hátíðin verði haldin í ár enda bólusetningar komnar vel af stað.
Birna Ásgeirsdóttir, formaður fjölskylduráðs Norðurþings sagði í samtali við Vikublaðið að Mærudagar verði til umræðu á næsta fundi ráðsins 31. maí. „Mærudagar verða ræddir ítarlega á fundinum,“ segir hún en bætir við að beðið sé eftir frekari útfærslum á sóttvörnum í sumar áður en endanleg ákvörðun verði tekin um það hvernig hátíðin verði skipulögð. „Ég huga að þeir verði ekki jafn stórir og við höfum mátt venjast árin fyrir Covid. En það verða Mærudagar, það er alveg klárt,“ segir Birna.