Það er ekki síður val að vera heldur en val að fara

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, doktorsnemi við Háskólann á Akureyri
Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, doktorsnemi við Háskólann á Akureyri

Byggðaráðstefnan 2023 – Búsetufrelsi? verður haldin 2. nóvember 2023, í Reykjanesbæ. Fjallað verður um búsetufrelsi og niðurstöður rannsóknarverkefnisins Byggðafesta og búferlaflutningar sem unnið var á vegum Byggðastofnunar í samvinnu við sérfræðinga við ýmsar íslenskar og erlendar háskólastofnanir. Á vef Byggðastofnunar segir að tilgangur ráðstefnunnar sé að tengja saman fræðilega og hagnýta þekkingu á byggðaþróun með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar um allt land. 

Ein af þeim sem flytja mun erindi á ráðstefnunni er Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, doktorsnemi við Háskólann á Akureyri en hún var þátttakandi í stýrihópi verkefnisins um búferlaflutninga. Hún segir Íslendinga duglega að ferðast um heiminn og búa á mismunandi stöðum en ekki eins duglega að dreifa sér um landið sjálft til búsetu. Þá sé frelsi til búsetu mögulega huglægt val, „Sjálf hef ég oft valið. Sest niður með sjálfri mér og velt hlutunum fram og til baka. Því ég bý á Þórshöfn á Langanesi. Og eins og einn kunningi sagði á förnum vegi, „býrðu enn þarna“, eins og þetta hafi verið eitthvað tilraunaverkefni sem var dæmt til að sýna mér fram á villu míns vegar. Enn sem komið er hefur valið farið á sama veg. Því það er ekki síður val að vera heldur en val að fara“.

Ótal þættir hafa áhrif

Hún segist brenna fyrir byggðamálum enda starfað við byggðarannsóknir og nú kennslu og rannsóknir í byggðamálum. Það er þó ekki alltaf einfalt að velja sér búsetu, enda eru þar ótal þættir svo sem atvinna, húsnæðismál, makaval, menntun of.l. þættir sem hafa áhrif. Gréta segist sjálf oft taka þessa rökræður við sjálfa sig, með búsetuvalið; „Ekkert samfélag eða búseta er gallalaus. Hverjir eru helstu kostir þess að búa í litlu samfélagi, eru börnin mín að missa af tækifærum? Væri auðveldara að vera nær þessari eða hinni þjónustunni? Fengi ég betri vinnu annarsstaðar? Því ekki skortir mig menningu hér í fámenninu, það er bara annars konar menning. Eða annað en hvað þá, er eitthvað ákveðið norm í menningu? Ég veit ekki menningarlegri daga en réttarhelgina, tala nú ekki um þorrablótið, bæjarhátíðina, kvenfélagið mitt eða hvað annað. Af nógu að taka. Og ég fer oftar í leikhús og bíó en vinir mínir sem þó búa með það við fótskör sína. Af því að ég bý víst líka við ferðafrelsi og vel hvernig ég nýti tíma minn. Tæknin er líka til staðar og það þarf að þora að nýta hana til jákvæðrar búsetuþróunar“

Að hafa kjart til að velja búsetu sem auðgar tilveruna

Það eru sannarlega tækifæri og áskoranir sem fólk stendur frammi fyrir þegar kemur að búsetuvali en Gréta Bergrún segir mikilvægast að fólki finnist það hafa val, og hafi kjark til að velja sér búsetu sem auðgar tilveruna. Sjálf segist hún ætla að slúðra svolítið í sínu erindi á ráðstefnunni en doktorsrannsókn hennar fjallar um samfélagsleg áhrif á ungar konur í litlum byggðarlögum, þar með talið slúður og drusluskömmun. „Lítil samfélög eru svo margslungin, mannleg og dásamleg, en þar bítur umtalið stundum. Slúður fylgir öllum félagslegum rýmum, hvort sem það eru lítil samfélög, íþróttafélög, vinnustaðir eða aðrir hópar, en ég er að skoða litlu samfélögin og hef fundið ýmislegt áhugavert þegar kemur að búsetuvali og búferlaflutningum þessu tengdu“.
Ráðstefnan á erindi við alla áhugasama um byggðamál, sveitarstjórnarfólk, fulltrúa atvinnulífs og stefnumótendur á sviði byggðamála. Skráning er á byggdastofnun.is fyrir 26. október.

 

Nýjast