Telja nýjan verslunarkjarna best komið fyrir utan miðbæjarins

Tölvumynd af fyrirhuguðum verslunarkjarna Samkaupa. Mynd T.ark og samkaup.is
Tölvumynd af fyrirhuguðum verslunarkjarna Samkaupa. Mynd T.ark og samkaup.is

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar vegna aðalskipulagsbreytingar í suðurbæ Húsavíkur, nýtt deiliskipulag í Aksturslág og breytingu deiliskipulags Stórhóls - Hjarðarholts. En til stendur að þar rísi nýr verslunarkjarni á vegum Samkaupa.

Umsagnir og athugasemdir bárust frá 18 aðilum en Skipulags og framkvæmdaráð Norðurþings fjallaði um málið á fundi sínum í dag.

Samkaup hf. og KSK eignir ehf. óskuðu snemma á þessu ári eftir lóð undir nýja verslunarmiðstöð við Norðausturveg sunnan Þorvaldsstaðaár á Húsavík. Ráðinu leist vel á hugmyndir sem kynntar voru og var skipulags- og byggingarfulltrúa verið falið að hefja vinnu við skipulag svæðisins. Skiptar skoðanir hafa verið uppi á Húsavík um staðsetninguna og vilja sumir að betur fari á því að opna nýja Nettóverslun í miðbæ Húsavíkur og efla hann í leiðinni. Margar umsagnanna bentu einmitt á þetta.

Skipulags og framkvæmdaráð hefur nú tekið ákvörðun um að halda áfram vinnu við breytingu aðalskipulagsins til samræmis við umfjöllun skipulagslýsingarinnar. Í bókun kemur meðal annars fram að sveitarfélagið hafi  ekki lóð sem hentar undir uppbyggingu verslunarkjarna nærri miðbæ og því væri uppbygging stórrar matvöruverslunar háð uppkaupum á lóðarréttindum og/eða samstarfi milli fyrirliggjandi lóðarhafa, sveitarfélags og framkvæmdaaðila. Enn hafa að mati skipulagsráðs ekki komið neinar ákjósanlegar lausnir þar að lútandi þó gildandi aðalskipulag hafi heimilað það til langs tíma. 

Bókun skipulags og framkvæmdaráð í heild sinni:

„Athugasemdir einstaklinga og Gb5 ehf snúa að mestu að því að ekki eigi í aðalskipulagi að heimila uppbyggingu nýs verslunar- og þjónustusvæðis sunnan núverandi íbúðarbyggðar, heldur eigi frekar að horfa til uppbyggingar matvöruverslunar í miðbæ Húsavíkur. Fyrir liggur beiðni til Norðurþings frá aðila um lóð til uppbyggingar stórrar matvöruverslunar, auk annar[r]ar þjónustu, sunnan núverandi byggðar. Ljóst er að sveitarfélagið hefur ekki lóð sem hentar undir þá uppbyggingu nærri miðbæ og því væri uppbygging stórrar matvöruverslunar háð uppkaupum á lóðarréttindum og/eða samstarfi milli fyrirliggjandi lóðarhafa, sveitarfélags og framkvæmdaaðila. Enn hafa að mati skipulagsráðs ekki komið neinar ákjósanlegar lausnir þar að lútandi þó gildandi aðalskipulag hafi heimilað það til langs tíma. Ráðið telur raunar á margan hátt heppilegast að stór matvöruverslun rísi utan núverandi miðbæjar svo ekki komi til þeirrar umferðaraukningar í miðbænum sem uppbygging stórar matvöruverslunar þar hefði í för með sér. Nú þegar er umtalsverð bílaumferð um miðbæ Húsavíkur, einkum að sumarlagi, þrátt fyrir að núverandi aðal matvöruverslun sé talsvert sunnan miðbæjar. Ráðið tekur ekki undir sjónarmið sem fram koma í athugasemdum um að nýtt þjónustusvæði í suðurbæ brjóti gegn ákvæðum landskipulagsstefnu, enda gert ráð fyrir að áfram verði gott aðgengi að verslun og þjónustu í miðbænum. Ráðið vill því halda áfram vinnu við breytingu aðalskipulagsins til samræmis við umfjöllun skipulagslýsingarinnar.“

Ráðið hefur falið skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna tillögu að breytingu aðalskipulags til samræmis við umfjöllun skipulagslýsingarinnar.


Athugasemdir

Nýjast