Tafaleikir við uppbyggingu vistvæns miðbæjar
„Með sjálfbærum lausnum og vistvænni hugsun í skipulagsmálum er kröfum samtímans mætt um leið og unnið er á ábyrgan hátt að því að tryggja hag komandi kynslóða.“
Vistbyggðaráð – ágúst 2014
Þessi vísdómsorð eru í fullu samræmi við þann anda sem ríkti við undirbúning og frágang deiliskipulags fyrir miðbæ Akureyrar. Í niðurstöðum skipulagsins, sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn árið 2014, segir: „Stefna fyrir miðbæ Akureyrar miðar að því að skapa aðlaðandi byggð, fjölbreytta landnotkun, góð tengsl við byggð og náttúru og vistlegt göturými og torg.“ Þessi lýsing fellur vel að sjálfbærum lausnum og vistvænni hugsun í skipulagsmálum enda var það ósk fjölmenns íbúaþings um framtíð miðbæjarins að tryggja þar skjólgóð svæði, viðbótarbyggingar yrðu í samræmi við þær sem fyrir eru og greiðar leiðir fyrir gangandi fólk úr miðbænum niður að Pollinum. Þessi viðmið voru virt í allri skipulagsvinnunni og niðurstaðan: Vistvænn miðbær með „rými sem þjóna bæði fyrirtækjum og almenningi og munu ýta undir stofnun nýrra vinnustaða og nýrrar þjónustu, bæði fyrir íbúa miðbæjarins, aðra bæjarbúa og gesti“ eins og segir í ítarlegri greinargerð sem fylgir deiliskipulaginu.
Með þessa ótvíræðu stefnumörkun í huga skýtur skökku við þegar fram koma hugmyndir frá einstaka bæjarfulltrúum um að hverfa frá ákvörðun um að gera Glerárgötuna norðan Torfunefs að vistvænni götu eins og skipulagið kveður á um. Þess í stað er talað fyrir því að byggja þar hraðbraut þvert í gegnum miðbæinn og kljúfa hann í sundur andstætt óskum bæjarbúa sem hafa allt frá upphafi kallað eftir góðu aðgengi frá miðbænum niður að Pollinum. Ef þessi ólánstillaga verður að veruleika er þar með búið að leggja á hilluna þá meginstefnu að miðbærinn verði vistvænn. Þessu verður að mótmæla harðlega og gera kröfu um að virða ósk bæjarbúa um að miðbærinn verði vistvænn í orðsins fyllstu merkingu enda er það ríkjandi stefna í bæjum og borgum um víða veröld. Þar telja menn mikla ósvinnu að setja bíla í öndvegi með þeim afleiðingum að fólk verði að hrökklast undan þessum fararskjótum nútímans. Látið er eins og bílar séu heilagir líkt og kýrnar á Indlandi og hafi algjöran forgang í samskiptum við mannfólkið.
En þá fyrst dámar mér þegar við bætist sérstakt dálæti einstaklinga og raunar virðulegra félaga hér í bæ á bílastæðabreiðunum sem nú eru í miðbænum og taka upp dýrmætustu lóðir bæjarins enda þótt búið sé að ráðstafa þeim til bygginga samkvæmt margnefndu skipulagi. Þetta góða fólk telur jafnvel nauðsynlegt að fjölga þessum stæðum enn frekar enda þótt hvergi annars staðar, þar sem miðbæir hafa verið færðir til nútímans með vistvænni áherslu, hafi bílabreiður af þessu tagi verið taldar boðlegar. Þvert á móti er í miðbæjum gert ráð fyrir bílastæðum í kjöllurum nýbygginga auk þess sem bílastæðahús eru byggð eftir því sem þörf krefur á hverjum stað. Í því sambandi má benda á að 1500 bílastæði verða undir nýbyggingunum í miðbæ Reykjavíkur milli Lækjartorgs og Hörpu. Engum hefur þar, frekar en annars staðar, dottið í hug að setja niður bílastæði á stórum svæðum á dýrmætustu lóðunum. Það er einfaldlega talið óhagkvæmt og ósmekklegt auk þess að vera andstætt öllum viðmiðunum um vistvænt umhverfi.
Við hér á Akureyri erum svo lánsöm að í staðfestu deiliskipulagi miðbæjarins er einmitt gert ráð fyrir vistvænum götum, bílastæðum í kjöllurum allra nýbygginga og að bílastæðahús verði byggt eftir nánari ákvörðun bæjarstjórnar. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða en mikilvægt að hvetja alla sem hlut eiga að máli til að hefjast handa um uppbyggingu miðbæjarins í samræmi við gildandi deiliskipulag. Segja má að hluti þeirrar uppbyggingar sé þegar hafinn með hinni glæsilegu húsaröð sunnan Torfunefs og Samkombrúnni góðu. Næst liggur fyrir að undirbúa reitina þar fyrir norðan og auglýsa síðan lóðirnar fyrir þá sem hafa áhuga á að taka þátt í að byggja upp hinn glæsilega vistvæna miðbæ í tengslum við þann gamla en hann mun auðvitað standa fyrir sínu hér eftir sem hingað til.
-Ragnar Sverrisson, kaupmaður