Tæknifræði í staðnámi við Háskólann á Akureyri

Tæknifræði á Akureyri
Tæknifræði á Akureyri

Raunverkefni tengd atvinnulífinu og hagnýt lokaverkefni

Í haust innrituðust fyrstu stúdentarnir í iðnaðar- og orkutæknifræði við Háskólann á Akureyri en samstarf háskólans við Háskólann í Reykjavík gerir námið mögulegt. Námið er fullgilt tæknifræðinám við HR sem tekur mið af þörfum atvinnulífs á Norðurlandi og gerir stúdentum kleift að stunda námið í heimabyggð. Námið er staðnám við HA og er fjarkennt frá HR á sama tíma og fyrirlestrar í tæknifræði fara þar fram. Þá njóta stúdentarnir þeirrar þjónustu sem HA hefur upp á að bjóða, sækja þangað dæmatíma og fá þar verklega kennslu ásamt því að vera þátttakendur í námssamfélaginu og félagslífinu við HA.

Verkvit, fræðileg þekking og tengsl við atvinnulífið

Þriðjudaginn 19. desember næstkomandi klukkan 17:00 fer fram kynning á náminu í stofu M101 í HA og eru öll áhugasöm sérstaklega hvött til þess að mæta og einnig verður streymt frá kynningunni. Ásthildur Lára Stefánsdóttir er verkefnastjóri tæknifræðikennslu við HA en hún sér um aðstoðarkennslu fyrir stúdenta í tæknifræði auk annarra verkefna. „Tæknifræði er fyrir alla sem hafa áhuga á því að tengja saman verkvit, fræðilega þekkingu og tengsl við atvinnulífið. Námið er náskylt verkfræði og starfa verkfræðingar og tæknifræðingar oft hlið við hlið í hinum ýmsu fyrirtækjum. Ef þú hefur áhuga á endurnýjanlegri orku, framleiðslukerfum, hönnun og teikningu vélhluta, svo eitthvað sé nefnt, að þá er iðnaðar- og orkutæknifræði eitthvað fyrir þig,’’ segir Ásthildur.

Rólegra líf á Akureyri og allt til alls

Ásthildur er fædd á Akureyri og flutti í Breiðholtið árið 2005 þegar hún var 11 ára gömul. Eftir framhaldsskóla lá leið hennar í Háskólann í Reykjavík þar sem hún kláraði bæði BS og MS gráðu í rekstrarverkfræði. „Ég starfaði sem aðstoðarkennari í HR meðfram námi og eftir útskrift hélt ég áfram að starfa í HR, bæði sem verkefnastjóri við Verkfræðideild og einnig sem aðstoðarkennari. Ég sá síðan auglýsta stöðu við HA, sótti um og nú sinni ég því starfi.  Áherslan á aðstoðarkennsluna var það sem heillaði mig en mér finnst mjög gaman að kenna og þá sérstaklega stærðfræði. Við eigum fjölskyldu á Akureyri og okkur langaði að prufa að flytja í minni bæ þar sem er minni umferð og rólegra líf. Einnig er mikill kostur að hér er stutt að fara á skíði, svo við ákváðum að slá til og flytja norður,’’ segir Ásthildur sem flutti til Akureyrar í haust til þess að taka þátt í uppbyggingu námsins við HA.

Ásthildur Lára Stefánsdóttir

Lögverndað starfsheiti að námi loknu

Kynningin 19. desember er skipulögð sem almenn kynning í upphafi og svo gefst þátttakendum tækifæri á að spyrja spurninga og eiga samtal við þau sem standa að náminu. Hún er því kjörið tækifæri fyrir þau sem eru forvitin um námið og einnig á góðum tíma, ef áhugasöm gætu þurft að bæta við sig einhverjum einingum úr framhaldsskóla fyrir haustið. „Helstu kostir námsins eru þeir að stúdentar hljóta bæði fræðilega og verklega þekkingu og eru tilbúnir til þess að fara út á vinnumarkaðinn við brautskráningu. Stúdentar fara í starfsnám og kynnast þannig raunverulegum verkefnum á atvinnumarkaðnum auk þess sem þeir gera hagnýt lokaverkefni. Stúdentar ljúka námi á þremur og hálfu ári og fá þá lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur. Mikil eftirspurn er eftir tæknifræðingum hvort sem er á verkfræðistofum eða hjá framleiðslu- og orkufyrirtækjum,’’ segir Ásthildur.

Eins og áður sagði fer kynningin fram þriðjudaginn 19. desember klukkan 17:00 í Háskólanum á Akureyri og geta áhugasöm nálgast frekari upplýsingar í gegnum QR kóðann. „Ég vonast til að sjá sem flest í næstu viku, við munum taka vel á móti öllum sem mæta og vonandi gefa betri innsýn inn í námið og lífið í HA. Hér er frábært tækifæri fyrir áhugasamt fólk sem vill stunda nám utan höfuðborgarsvæðisins,’’ segir Ásthildur að lokum.

 

Nýjast