Tækifærin í Norðurþingi

Jónas Þór Viðarsson, Árdal í Kelduhverfi
Höfundur er smiður, bóndi og kennari og skipar 3. sæti á V…
Jónas Þór Viðarsson, Árdal í Kelduhverfi Höfundur er smiður, bóndi og kennari og skipar 3. sæti á V-listanum í Norðurþingi

Jónas Þór Viðarsson skrifar

Okkur íbúum í Norðurþingi hættir stundum til að gleyma því hve mörgum náttúruperlum sveitarfélagið býr yfir.  Norðurþing er stórt og víðfemt sveitarfélag og þessar náttúruperlur eru dreifðar um allt sveitarfélagið. Þessi staðreynd er styrkleiki sem við þurfum að nýta okkur á skynsamlegan hátt. Í Norðurþingi hefur margt breyst í atvinnumálum á síðustu árum, sumt hefur reynst sveitarfélaginu erfitt en einnig hafa orðið jákvæðar breytingar. Í sveitarfélaginu hafa orðið til öflug ferðaþjónustufyrirtæki af ýmsum stærðum og gerðum sem hafa styrkt okkar mannlíf og innviði. Margir bændur í sveitarfélaginu hafa tekið þátt í þessari uppbyggingu og bjóða uppá gistingu á sínum búum sem oft eru nærri náttúruperlum á svæðinu. Ferðamenn streyma á okkar svæði ár hvert til að njóta náttúruperla og sumir staldra við í stuttan tíma en aðrir í lengri tíma. Ferðaþjónustan er nú eftir faraldurinn sem betur fer að komast á fullt skrið og stefnir í mikla atvinnumöguleika í greininni í sveitarfélaginu í sumar.

Þótt ferðaþjónustan hafi vaxið og svokallaðar axlir (apríl-maí og september-október) utan hásumars hafi stækkað mælt í fjölda gistinátta eða fjölda ferðamanna á okkar svæði  - þá eru umsvifin enn árstíðarbundin og lang mest yfir sumarið.  Það er því enn krefjandi verkefni í dreifbýlinu að laða að fólk sem sest að varanlega allt árið. Nú er vonandi að vaxandi umsvif í fiskeldi á landi í norðursýslunni verði styrkur fyrir heilsársatvinnumöguleika og svo einnig hitt að beint millilandaflug er nú að hefjast til Akureyrar allt árið sem ætti að styrkja ferðaþjónustuna sem heilsársgrein. Þetta er jákvæð þróun fyrir okkar svæði.

Vantar nýtt húsnæði

Auðvitað eru þessar breytingar í ytra umhverfi í atvinnumálum ekki eitthvað sem Norðurþing sem sveitarfélag getur stýrt en sveitarfélagið þarf að bjóða uppá aðlaðandi innviði fyrir íbúa alls staðar í sveitafélaginu til að tryggja heilsársbúsetu. Þar vegur hið augljósa þungt, þ.e. að sveitarfélagið þarf að bjóða barnafjölskyldum uppá góða grunn- og leikskóla og aðra nauðsynlega grunnþjónustu. Í norðurhluta sveitarfélagsins þar sem ég þekki vel til er sérstaklega aðkallandi að auka við framboð af húsnæði.  Þetta verður sameiginlegt verkefni hins opinbera og einkaframtaks og vonandi munu verða tekin skref í þá átt á komandi kjörtímabili til að fólki geti fjölgað. Ég ætla að vera bjartsýnn á að með samvinnu íbúa, sveitarfélags og annarra hagaðila getum við hjálpast að og gera Norðurþing að sterku samfélagi sem hlúir að fólki og náttúru á komandi árum.

Jónas Þór Viðarsson, Árdal í Kelduhverfi
Höfundur er smiður, bóndi og kennari og skipar 3. sæti á V-listanum í Norðurþingi

Nýjast