Tækifærin finnast á Norðurlandi

Njáll Trausti Friðbertsson.
Njáll Trausti Friðbertsson.

Hver jákvæða fréttin rekur aðra á Norðurlandi þessa dagana. Á mánudag hóf hollenska ferðaskrifstofan Voight Travel og flugfélagið Transavia flug milli Akureyrar og Rotterdam, en af því tilefni tilkynnti framkvæmdastjóri Voight Travel að sala sé þegar hafin á ferðum ferðaskrifstofunnar á átta ferðum frá Amsterdam til Akureyrar í febrúar til mars á næsta ári.

Reglulegar flugsamgöngur milli Akureyrar og Hollands er góð og mikilvæg viðbót sem kemur til með að styrkja ferðaþjónustu á Norðurlandi mjög, og reyndar víðar enda þekkt staðreynd að Hollendingar eru í hópi þeirra þjóðerna sem dvelja einna lengst á Íslandi í heimsóknum sínum til landsins og fara þeir víða. Ég óska flugklasanum Air 66 og Markaðsstofu Norðurlands til hamingju með áfangann enda er hér um að ræða afrakstur þess mikla og góða starfs sem unnið er á vegum Markaðsstofunnar.

Ávinningurinn af tíðari flugsamgöngum er ótvíræður, en fyrir utan að betri flugsamgöngur styrkja ferðaþjónustuna, auðveldar það Akureyringum að halda utan. Slíkt kemur bersýnilega fram í könnunum sem gerðar hafa verið meðal bæjarbúa og sýna að mikill meirihluti íbúa telur betri flugsamgöngur frá Akureyri leiða til tíðari utanlandsferða.

Vegaframkvæmdir að fara á fullt

Í byrjun þessarar viku var farið í útboð á síðasta áfanga við Dettifossveg, en þeirri framkvæmd höfum við barist fyrir um langt skeið, og má nú segja að Demantshringurinn sé að verða fullbúinn til markaðssetningar. Verkið felst í lagningu burðarlags og klæðningar á 7,2 kílómetra kafla ofan Vesturdals og byggingu nýs 4,2 kílómetra langs vegar neðan Vesturdals. Byggt verður frá Dettifossvegi 2,7 kílómetra langur vegur niður í Hólmatungur, 1,6 kílómetra langur vegur niður í Vesturdal og 1,5 kílómetra langur vegur upp á Langavatnshöfða. Verklok eru áætluð 1. september 2021 og er áætlaður kostnaður vegna framkvæmdanna um 1,5 milljarður króna. Vegagerðin hefur einnig boðið út endurbyggingu á veginum fyrir botni Bakkaflóa, hluta leiðarinnar milli Þórshafnar og Bakkafjarðar, og á nýr vegur að vera tilbúinn haustið 2021.

Staða raforkumála tekur stakkaskiptum í Eyjafirði

Þá eru framkvæmdir við Kröflulínu 3 að hefjast eftir að sveitarstjórn Skútustaðahrepps gaf út framkvæmdaleyfi á fundi sínum í síðust viku en línan er fyrsti áfanginn í eflingu flutningskerfis raforku á Norðurlandi og Austurlandi. Kröflulína 3 tengir saman Kröfluvirkjun austur í Fljótsdalsstöð.  Ef áætlanir ná fram að ganga hefjast síðan framkvæmdir við Hólasandslínu 3 á milli Rangárvalla og Kröflu, vonandi á seinni hluta næsta árs og er ljóst að staða raforkumála tekur stakkaskiptum í Eyjafirði eftir að þeirri framkvæmd lýkur. Norðurland hefur um langt skeið búið við takmarkað afhendingaröryggi og gæði orkunnar ekki verið fullnægjandi með tilheyrandi flökti og óáreiðanleika en nú horfir loks til betri vegar. Bætt flutningsgeta raforku á Norðurlandi skapar sóknarfæri í uppbyggingu og eflingu atvinnulífs.

Nýsköpun og ferðaþjónusta

Í síðustu viku var nýtt 4.000 fermetra gagnaver Etix tekið í notkun á Blönduósi og er það mikils virði að fá slíka nýsköpun í samfélagið. Samtals eru 25 þúsund tölvuþjónar í gagnaverinu sem nýta norðanáttina sem náttúruauðlind til að kæla tölvubúnaðinn sem er nýttur til flókinna útreikninga. Fimmtán manns starfa hjá Etix á Íslandi, þar af tíu starfsmenn á Blönduósi. Raforkuþörf gagnaversins er 34 megavött en möguleiki er á að tvöfalda þá orku án breytinga. Í skipulagi er gert ráð fyrir allt að fimmföldu byggingarmagni til viðbótar á svæðinu og hefur framkvæmdastjóri Etix þegar gefið út að fyrirtækið stefni á frekari uppbyggingu á Blönduósi.

Þá er ekki nema rúm vika þar til ferðamannaleiðin Arctic Coast Way - Norðurstrandarleiðin verður formlega opnuð, þann 8. júní, en þar er um að ræða nýtt og spenanndi verkefni sem er hugsað til þess að draga athygli ferðamanna að strandlengjunni meðfram Norðurlandi. Vegir sem þessir eru þekktir í ferðaþjónustunni á heimsvísu sem verkfæri til að beina ferðamönnum eftir ákveðnum vegum á ákveðin svæði. Arctic Coast Way skapar aukin tækifæri fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi með því að skapa vörumerki sem þau geta tengt sig við, en með því geta þau orðið sýnilegri á innlendum sem og erlendum mörkuðum og sjáum við þegar þess merki, en þessi nýja ferðamannaleið komst á lista Lonely Planet sem einn af áhugaverðustu ferðamannastöðum Evrópu 2019.

Það er mikill kraftur á Norðurlandi um þessar mundir og með aukinni fjárfestingu og uppbyggingu í innviðum á svæðinu fáum við frekari byr í seglin. Höldum uppbyggingunni áfram. Framtíðin er björt.

 

 

 

Nýjast