20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Tækifæri innan öldrunarhjúkrunar
Vikudagur heldur áfram að birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga á Akureyri og nágrenni þar sem þeir kynna sín störf. Í þessari viku er það Sigurlína Stefánsdóttir sem skrifar.
Ég útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri árið 2008 sem þýðir að nú í sumar hef ég starfað í alls 10 ár sem hjúkrunarfræðingur. Starf hjúkrunarfræðinga er ótrúlega fjölbreytt og með þessa menntun standa manni nær allar dyr opnar. Ég get með góðri samvisku sagt að mér hafi aldrei fundist vinnan mín leiðinleg á þessum tíu ára ferli enda sinnt afar spennandi verkefnum á mismunandi vinnustöðum. Ég hef komið víða við á starfsferlinum, var mörg ár á Lyflækningadeild SAk, var einnig eitt ár á Bæklunarskurðdeild LSH og hef komið að kennslu í HA jafnt bóklegri sem verklegri. Frá árinu 2015 hef ég unnið hjá Öldrunarheimilinum Akureyrar á Aspar- og Beykihlíð, fyrst sem verkefnastjóri og aðstoðarforstöðumaður og nú sem forstöðumaður frá síðastliðnu hausti.
Núverandi starf mitt er að mörgu leiti ólíkt fyrri störfum mínum sem hjúkrunarfræðingur en því fylgja margar nýjar áskorarnir og verkefni og dagarnir mjög fjölbreyttir. Töluverður tími fer í skrifstofuvinnu og sinna daglegum rekstri sem fylgir starfinu en sjálf hjúkrunin er þó alltaf líka viðamikill hluti starfsins. Á heimilinu búa 30 íbúar og eru þeir eins ólíkir og þeir eru margir. Ég reyni að taka þátt í hjúkruninni eins og tími gefst til og finnst afar gefandi og gaman að hjúkra og sinna fólki. Samskipti við íbúa og aðstandendur eru einnig stór hluti af starfinu og hafa yfirsýn yfir það sem er í gangi og þá þjónustu sem veitt er. Til mín leita bæði íbúar og aðstandendur með hin ýmsu mál sem á þeim brenna og reyni ég eftir fremsta megni að aðstoða þá.
Á Aspar- og Beykihlíð eru starfandi rúmlega 40 starfsmenn og viðamikill hluti starfsins snýr að starfsmannahaldi, í gegnum ráðningar, vaktaskýrslugerð, vinnustund, launamál o.s.frv. Það sem er þó einna mikilvægast í starfsmannamálunum eru samskipti við starfsfólkið. Hlú þarf vel að mannauðnum sem við höfum enda sinna starfsmennirnir erfiðu, gefandi og jafnframt oft krefjandi starfi jafnt andlega sem líkamlega. Mikilvægt er að vera til staðar fyrir starfsfólk og það viti að hægt sé að leita til manns.
Öldrunarhjúkrunin hefur mikið breyst á undanförnum árum og er ég afar stolt af því starfi sem unnið er hér á Hlíð. Að mestu hefur gengið ágætlega að manna stöður hjúkrunarfræðinga en við höfum þó líkt og aðrar heilbrigðisstofnanir á Íslandi orðið vör við að erfiðara er orðið að fá hjúkrunarfræðinga til starfa. Tel ég það vera eina mestu áskorun sem við stöndum frammi fyrir í dag og á komandi árum. Fjölga þarf hjúkrunarfræðingum og gera starfið og launakjör samkeppnishæf þannig að stéttin kjósi að starfa við fagið frekar en að leita á önnur svið. Þegar ég horfi á það svið sem ég starfa við, þ.e. öldrunarhjúkrun finnst mér afar mikilvægt að kynna starfið fyrir hjúkrunarnemum og nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum. Öldrunarhjúkrun er nefnilega ótrúlega fjölbreytt og krefjandi, stór hluti íbúa á hjúkrunarheimilum glíma við einhvers konar heilabilun og þegar verið er að sinna þeim einstaklingum reynir mjög mikið á samskiptahæfni. Þessir einstaklingar eiga oft erfitt með að tjá sig um sína líðan eða lýsa einkennum og mikilvægt að hjúkrunarfræðingur hafi til að bera klíníska þekkingu til að meta íbúa út frá einkennum og geta lesið í aðstæður. Nær allir íbúar glíma við einhvers konar heilsufarsvanda og erum við að sinna fólki með nær alla flóru sjúkdóma hvort sem það er hjarta, lungu, meltingarkerfi, stoðkerfi, brot, geðsjúkdómar og fleira. Einnig er líknandi hjúkrun og lífslokahjúkrun viðamikill hluti af starfi öldrunarhjúkrunarfræðinga og leggjum við mikla áherslu á það hér hjá ÖA að síðustu stundir okkar íbúa séu eins góðar og mögulegt er.
Það eru mörg tækifæri til staðar í mínu starfi og alltaf er verið að leita leiða til að gera þjónustuna betri. Á undanförnum árum hafa miklar breytingar orðið með tilkomu þeirrar hugmyndafræði sem unnið er eftir, þ.e. Eden stefnunni og þjónandi leiðsögn og er það vinna sem verður áfram í gangi. Það sem brennur þó einna mest á mér í dag er að leita leiða til að samþætta alla þjónustu, gera kerfið einfaldara og mismunandi þjónustustig geti unnið betur saman. Afar mikilvægt er að styrkja heimahjúkrun, heimaþjónustu og dagvistun enn frekar. Með þessu móti verður ferlið auðveldara fyrir aldraða og hjálpar þeim að búa lengur heima við öruggar aðstæður.
Hvar ég sé sjálfa mig eftir 20 ár er spurning sem erfitt er að svara, það eina sem ég veit fyrir víst er að ég verð starfandi við hjúkrun á einhverju sviði því það er í raun það eina sem ég get hugsað mér að gera.