Sýningin verður að halda áfram
Örlygur Hnefill Örlygsson getur með réttu talist guðfaðir Eurovision á Húsavík enda hefur hann vakið athygli á heimabænum sínum langt út fyrir landsteinanna í tengslum við tökur á myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Myndin sem framleidd var af Netflix skartaði meðal annars Will Ferrel og Rachel McAdams í aðalhlutverkum og var sögusviðið að stórum hluta Húsavík enda fóru tökur fram þar.
Örlygur fylgdi myndinni eftir eins og frægt er orðið með óskarsherferð sem vakti heimsathygli þegar ljóst var að titillag myndarinnar; Húsavík, My Hometown kom til greina til óskarsverðlauna. Hann setti jafnframt upp safn á Húsavík sem helgað er Eurovision keppninni og hefur að geyma muni úr myndinni og frá flytjendum keppninnar. Húsavík hefur löngum verið titluð höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi. Nú getur bærinn með réttu einnig verið höfuðborg Eurovision.
Húsavík aftur í sviðsljósið
Nú fyrir skemmstu kom út tæplega hálftíma langur kynningar þáttur um Húsavík og tilurð myndarinnar á youtube. Myndina framleiddi Örlygur fyrir Visit Húsavík í samstarfi við Wiwi bloggs. Myndbandið var jafnframt lokaverkefni Örlygs í BA námi í skapandi greinum við Háskólann á Bifröst. Þættinum hefur þegar verið steymt 4000 sinnum þegar þetta er ritað. Þar er meðal annars rætt við David Dobkin, leikstjóra myndarinnar sem upplýsir meðal annars um að Húsavík hafi upphaflega ekki verið í handriti myndarinnar. Þá er jafnframt rætt við Molli Sandén, sem flutti titillag myndarinnar.
„Ég er alveg viss um að það kemur eitthvað út úr þessum þætti fyrir Húsavík og þetta svæði,“ segir Örlygur í samtali við Vikublaðið.
Gjallarhorn út í Eurovisionsamfélagið
Wiwi bloggs er lang stærsta sjálfstæða Eurovision síðan á netinu í dag og á sér fjölmarga harðkjarna aðdáendur. „Þau eru búin að vera skrifa um Eurovision síðan 2009 og pósta myndböndum þarna inn mörgum sinnum á dag. Ég held að óhætt sé að fullyrða að hörðustu aðdáendurnir séu þarna inni,“ segir Örlygur. Einn af stjórnendum síðunnar, William Lee Adams sem einnig sér um afþreyingarefni fyrir BBC ræðir við Örlyg og Leonardo Piccione í tenglsum við Eurovision safnið. Þeir félagar vonast til þess að þriggja ára samningum um sýninguna verði framlengdur.
„Það sem ég var að hugsa með þessari mynd er að sumarið er á næsta leiti og ég vildi minna Eurovisionaðdáendur og þeirra samfélag á okkur hér fyrir norðan,“ útskýrir Örlygur og segir frá samstarfinu við Wiwi bloggs.
„William sem er með okkur í þessu var fenginn þegar David var að skipuleggja Eurovisison myndina. Hann vildi fá þetta aðdáendasamfélag á bak við myndina og hann talaði við Wiwibloggs. Þau voru strax frá upphafi með í ráðum og Williams meira að segja leikur smá hlutverk í myndinni. Ég sá það alveg að leikstjórinn passaði vel upp á að halda lykilfólki úr aðdáendasamfélaginu inn í lúppuni til þess að þetta fengi athygli,“ segir Örlygur og bætir við að hann hafi rætt við Williams strax eftir að myndin kom út og hann sé búinn að skrifa oft um Húsavík í gegn um þetta ferli allt saman. Þeir Örlygur hafa verið í talsverðum samskiptum síðan. „Hann var að hjálpa okkur í óskarsherferðinni við að koma hlutum á framfæri. Hann hjálpaði okkur mikið þar,“ segir Örlygur.
Vel heppnað Eurovision safn
Þegar Örlygur ásamt Leonardo settu upp Eurovision safnið var gerður þriggja ára samningur við Netflix um lán á munum og réttinn til að nota nafn myndarinnar í tengslum við sýninguna. Samningurinn rennur út í haust en nú vilja þeir félagarnir leita allra leiða til að framleggja þessa áhugaverðu sýningu sem laðar að sér fjölda Eurovision aðdáenda.
Biðlar til Netflix
„Okkur langaði aldrei til að hafa þetta svona stutt, þetta snerist bara um samninginn við Netflix. Myndin er líka liður í því að ýta undir það að sýna að við viljum halda áfram . Ég einmitt sendi þennan þátt um leið og hann fór í loftið á tengiliði mína hjá Netflix til þess að þeir sæju hvar okkar hugur stendur. Við erum að undirbúa bréf til þeirra núna með ósk um að framlengja samstarfið,“ útskýrir Örlygur og bætir við að hann sé vongóður um að vel verði tekið í beiðnina.
„Við þurftum í raun að gera samning við tvo stóra aðila til að fá að gera þetta. Annars vegar Netflix til að fá lánaða alla munina sem við svo fengum frá þeim úr myndinni og réttinn til nota nafn hennar. Hins vegar á Netflix ekki nafnið Eurovision. Þeir voru með leyfi frá Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) til þess að nota það, við þurftum því að gera sérstakan samning við EBU til þess að fá að nota Eurovision vörumerkið. Báðir samningarnir voru til þriggja ára. Ef Netflix samþykkkir þetta þá er ég alveg viss um að EBU samþykkir að leyfa okkur að halda áfram með sýninguna.“
Þá eru á sýningunni búningar og aðrir munir sem íslenskir flytjendur hafa lánað en Örlygur telur það verði vandræðalaust að framlengja lánið á þeim. „Það er engin stressaður í þeirri deildinni, ég held að það verði ekki fyrirstaða,“ segir Örlygur sem er vongóður um að leyfi fáist til að halda sýnigunni áfram.
„Við opnuðum í okt 2021, það tók auðvitað svolítinn tíma að safna þessu saman og koma þessu upp. Það er svo ekki fyrr en í ágúst í fyrra að það fer að verða traffík hjá okkur. Þetta fór rólega af stað en svo varð hvellur í ágúst sl. Það tekur alltaf tíma að koma svona að hjá ferðaskrifstofum og slíkt. Það væri því algjör synd að ná ekki nema einu góðu sumri núna í sumar ef að þetta enda í haust, Við munum reyna höfða til þeirra með það að fá að halda þessu áfram.“
Framhaldsmynd í pípunum?
Í kynningarmynd Örlygs segir David Dobkin, leikstjóri Eurovision myndarinnar að hann og aðaleikararnir hafi áhuga á að gera framhaldsmynd. Það sé hins vegar undir Netflix komið að gefa grænt ljós á það. „Hann er stútfullur af hugmyndum um þetta, en þetta veltur auðvitað á Netflix hvað þeir vilja gera. Ég veit það þó að þessi mynd fékk gríðarlegt áhorf, Ég fékk upplýsingar frá Netflix um að myndin hafi verið að toppa í fleiri vikur í ákveðnum löndum. Myndin fékk góða spilun, það er alveg klárt. Ég myndi því halda að það sé amk ekki útilokað að framhald verði á Fire saga,“ segir Örlygur að lokum vongóður um að „Heimabærinn minn“ rati aftur inn í alþjóðlegt streymi efnisveitunnar.