Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri sýnir íslenska öróperu í grunnskólum

Öróperan Skoffín og skringilmenni er sýnd í grunnskólum á Norðurlandi eystra um þessar mundir.   Myn…
Öróperan Skoffín og skringilmenni er sýnd í grunnskólum á Norðurlandi eystra um þessar mundir. Myndir frá Hnoðra

„Það er alveg ótrúlega gaman og gefandi að fara á milli skóla og sýna, kynnast nýjum stöðum og stemningunni og andanum í mismunandi skólum,“ segir Erla Dóra Vogler, ein úr sviðslistahópnum Hoðri í Norðri. Hópurinn hefur sýnt nýja íslenska öróperu - Skoffín og skringilmenni í grunnskólum á Norðurlandi eystra. Sýningar urðu  17 talsins í 21 skóla og sáu hátt í  1.200 börn í 5. til 7. bekk þessa sýningu.

Erla Dóra segir að áhorfendur séu allt frá því að vera 10 til 20 krakkar á sýningu og upp í um 150 þar sem flestir eru, en skólarnir séu misstórir og í sumum tilvikum sameinast skólar um sýningu.

 Álfar, draugar ástir og svik

Skoffín og skringilmenni er ópera um álfa, drauga og tónlistarkennara, ástir, svik og fleira krassandi - og er sprengfull af góðri tónlist. Persónur í óperunni eru  Ólafur tónlistarkennari, Skotta draugur, Hulda álfkona, Veggja-Sleggja útburður og Ólöf húsvörður.

Óperan er eftir  Þórunni Guðmundsdóttur, leikstjóri og leikmyndahönnuður er Jenný Lára Arnórsdóttir og búningahönnuður Björg Marta Gunnarsdóttir. Flytjendur eru Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari og nýr stjórnandi Karlakórsins Heimis og söngkonurnar Björk Níelsdóttir og Erla Dóra Vogler.

Krakkarnir taka okkur vel

 „Krakkarnir hafa tekið okkur mjög vel. Þetta er í fyrsta skiptið sem langflest sjá óperusýningu á sviði og það er mjög gott að fyrstu almennilegu kynni þeirra af þessu listformi séu af verki á íslensku, með grípandi lögum og skemmtilegum texta, og þar tekst Þórunni tónlistar- og textahöfundi einstaklega vel upp að vanda,“ segir Erla Dóra.

Það var talsverð keyrsla á okkur  flytjendum og við erum oft meira eða minna búin á því í dagslok,  en þetta er rosalega skemmtilegt engu að síður og auðvitað var þetta tímabundið,“ segir hún er hópurinn þeyttist á milli grunnskóla í 6 daga og byrjaði snemma að morgni.

 Eyrarrós fyrir Aðventuævintýri

Þetta er önnur sýning Hnoðra í norðri, en fyrir fyrstu sýningu sína, Ævintýri á aðventu, hlaut hópurinn Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar fyrir framlag sitt til menningar á landsbyggðinni. Ævintýri á aðventu var sýnd í nær öllum skólum frá Vopnafirði til Hvammstanga fyrir jólin 2022 í samstarfi við List fyrir alla og með hjálp góðra styrkja og aftur fyrir síðustu jól hjá Handbendi á Hvammstanga, á lokuðum sýningum í Salnum Kópavogi og í Samkomuhúsinu í samstarfi við MAk, Auk þess var Hnoðra boðið að taka þátt í barnasviðslistahátíðinni Bitolino í Bitola í Norður Makedóníu sl. sumar.

 

 

 

Nýjast