Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hefur áhyggjur af stöðu bænda.
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps lýsir þungum áhyggjum af stöðu bænda og íslensks landbúnaðar vegna mikilla kostnaðarhækkana á aðföngum og vegna íþyngjandi vaxtakostnaðar á skuldsettum búum.
Landbúnaður er stór atvinnugrein í sveitarfélaginu og mikilvægt að matvælaframleiðslu séu skapaðar öruggar rekstraraðstæður. Breytingar á reglugerðum og lagaumhverfi síðustu ára er lúta að aðbúnaði hefur knúið bændur til að fara í tugmilljóna fjárfestingar með tilheyrandi fjármagnskostnaði. Í núverandi vaxtaumhverfi er enginn hvati til nýliðunar sem er grafalvarleg staða. Sauðfjárbændur hafa jafnframt í áratugi þurft að glíma við erfið rekstrarskilyrði sem hefur leitt til mikillar fækkunar í þeirri starfsgrein.
Sveitarstjórn skorar á stjórnvöld að grípa þegar í stað til raunhæfra aðgerða gagnvart þeim rekstrarerfiðleikum sem bændur standa frammi fyrir svo ekki verði hrun í greininni. Skapa þarf landbúnaði öruggar rekstraraðstæður til framtíðar sem stuðlar að nýliðun í greininni til að matvælaframleiðsla eflist, þróist áfram og verði áfram ein af grunnstoðum fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar.