Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða vegna erfiðleika sem bændur standa frammi fyrir
„Staðan er mjög slæm og ég er langt í frá að mála skrattann á vegginn þegar ég segir að hún er grafalvarleg. Bændur eru ekki kvartsárir og hafa um árin borið sig vel, haft bjartsýni að vopni í þeirri von að upp rynni betri tíð. Það virðist hins vegar löng og erfið brekka framundan og ekki gott að sjá hver þróunin verður. Það er ljóst að margir eru við það að gefast upp og ég heyri að hér um slóðir séu menn farnir að hugleiða að hætta búskap,“ segir Hermann Ingi Gunnarsson oddviti Eyjafjarðarsveitar og bóndi í Klauf.
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar sendi frá sér ályktun þar sem hún lýsir þungum áhyggjum yfir þeirri stöðu sem upp er komin hjá bændum. Miklar kostnaðarhækkanir og hækkun stýrivaxta á liðnum tveimur árum hafi verið bændum mjög erfiðar og rekstrargrundvöllur margra búa brostið. „Það er sveitarfélaginu afar mikilvægt að matvælaframleiðslu séu skapaðar öruggar rekstraraðstæður enda er hún aðalatvinnuvegur sveitarfélagsins.“
Enn fremur kemur fram í ályktun að atvinnuvegur eins og landbúnaður sem í eðli sínu þarf miklar fjárfestingar með hlutafallslega litla veltu þurfi að geta gengið að lánakjörum sem skapi fyrirsjáanleika í afborgunum og vaxtakjörum. Sveitarstjórn skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða gagnvart þeim erfiðleikum sem bændur standa frammi fyrir svo ekki verði hrun í greininni. Tryggja þurfi að matvælaframleiðsla eflist og verði fjölbreyttari svo fæðuöryggi þjóðarinnar verði betur tryggt.
Þolinmæðin er á þrotum
Hermann Ingi segir bændur alvana að glíma við erfiðleika af allra handa tagi, náttúran geri þeim oft óleik og staða efnahagsmála hverju sinni geti líka leikið þá grátt líkt og nú er raunin. „Þetta hefur farið versnandi allt undanfarið ár og má segja að mælirinn sé fullur, þolinmæðin á þrotum. Fram undir þetta hafa stór kúabú haft þokkalega afkomu en staðan er aldeilis ekki þannig lengur. Bændur vinna baki brotnu og hafa ekki lengur svigrúm til að reikna sér laun. Öll innkoma fer í að greiða aðföng sem hafa hækkað gríðarlega og engan lækkun í kortunum þar sem og vexti sem eins og alþjóð veit hafa hækkað upp úr öllu valdi. Þetta getur ekki gengið svona lengur,“ segir hann og bætir við að á stöndugum kúabúum nái menn ekki lengur endum saman. Margir kúabændur hafi verið að endurnýja fjós til að uppfylla aðbúnaðarreglugerðir um dýravelferð og það með ærnum kostnaði. Það sé nú að koma í fangið á þeim nú þegar vextir á lánum sem tekin voru til framkvæmda hafi farið upp úr öllu valdi.
Þá nefnir hann að ekki sé hægt að ráða inn afleysingar vegna kostnaðar og því komist bændur ekki frá til að hvíla sig um stundarsakir. „Það vill enginn lifa þannig lífi lengur, fólk vill eiga frí, lifa fjölskyldulífi og geta gert sér dagamun stöku sinnum, en það er ekki hægt í þessari þröngu stöðu sem nú ríkir. Þreytan er orðin ansi mikil.“
Margir komnir með nóg og horfa til þess að hætta
Hermann Ingi segir að staðan hafi smám saman verið að færast á ógæfuhliðina hjá bændum og reksturinn að þyngjast eftir því sem vextir hafa hækkað og verðbólga aukist. Sprettgreiðslur sem ríkið greiddi bændum og var hluti að viðbrögðum vegna kórónuveiru hafi virkað skamma stund, „en staðan er orðin svo alvarleg núna að þó svo að slíkar greiðslur væru í boði núna myndi ástandið ekki lagast. Því miður er staðan þannig að bændur eru margir hverjir á því að nóg sé komið og ég hef heyrt á nokkrum að best sé að bregða búi og finna sér annað að gera.“
Landbúnaður skipti Eyjafjarðarsveit miklu máli og sé þar aðalatvinnuvegur, en í raun segir Hermann Ingi að sama gildi um allan Eyjafjörð og í fjórðunginn allan. Sem dæmi starfi allt að 900 manns á Akureyri við úrvinnslu landbúnaðarafurða og eða í störfum tengdum landbúnaði. Þannig séu hagsmunirnir ekki einungis bundnir við Eyjafjarðarsveit heldur héraðið allt. „Það er orðið aðkallandi að við getum búið við eðlileg starfskilyrði.“
Landbúnaður er aðalatvinnuvegurinn í Eyjafjarðarsveit og skiptir miklu máli fyrir
sveitarfélagið. Mynd MÞÞ