Sveitarfélög hætta stuðningi við Flugklasann Air 66N
„Við höfum óskað eftir samtali við sveitarfélögin og vonum að ákvörðunin verði endurskoðuð,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands um þá ákvörðun nokkurra sveitarfélaga að hætta þátttöku í verkefni flugklasans Air66N. Alls eru 16 sveitarfélög á Norðurlandi og hafa 12 þeirra styrkt verkefnið, Akureyrarbær greiddi 9 milljónir króna á ári og önnur samtals um 5 milljónir eða sem næst 300 krónur á hvern íbúa þeirra.
Akureyrarbær var fyrstur til að hafna áframhaldandi þátttöku og nú í vikunni voru sveitarfélögin sem tilkynnt hafa að þau verði ekki lengur með orðin 5. Arnheiður býst við að fleiri fylgi fordæmi Akureyrarbæjar.
Stjórn Markaðsstofu Norðurlands hefur sagt að verið sé að grafa undan góðu og nauðsynlegu starfi MN með því að hætta stuðningi við þetta mikilvæga verkefni fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi. Stjórn MN segir að hætti sveitarfélögin stuðningi við verkefnið þýði það að óbreyttu að þetta starf leggist af og þar með markaðssetning fyrir beint millilandaflug til Akureyrar.Lýstu flestir stjórnarmenn vonbrigðum með þessa ákvörðun sveitarstjórnanna, sem í öllum tilfellum var tekin án nokkurs samtals við MN.
Arnheiður segir að áhrif inn í norðlenska ferðaþjónustu verði mikil, ekki síst af vetrarflug, en flug beint til Akureyrar á þeim árstíma vinni á árstíðasveiflu. Það komi með gesti yfir „tóma“ mánuði og eigi sinn þátt í að skapa heilsársstörf og grundvöll fyrir fjárfestingu á svæðinu. „Það er algjört lykilatriði fyrir þróun ferðaþjónustunnar að vinna niður árstíðarsveifluna og skapa grundvöll fyrir rekstri allt árið,“ segir hún.
Verkefnið byggir undir lífsgæði íbúanna
Breytingar á verkefninu eru mögulegar að sögn Arnheiðar, þ.e. að koma því fyrir á annan hátt til lengri tíma og segir hún nauðsynlegt að taka þá umræðu. Fara þurfi yfir þætti eins og hvar verkefninu er best fyrir komið og hvað það muni kosta.„Hver ætti að bera ábyrgð á verkefni um beint millilandaflug um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll, er það ríki, sveitarfélög, ferðaþjónustan eða aðrar atvinnugreinar,“ segir hún. „Burtséð frá því hvar verkefnið er staðsett er nauðsynlegt að vinna það því verkefnið er ekki aðeins tekjuskapandi heldur byggir undir mikil lífsgæði fyrir íbúana og er grundvöllur að framtíðaruppbyggingu á svæðinu.“
Talsvert millilandaflug er fram undan um Akureyrarflugvöll en þar má m.a. nefna að easyjet muni fljúga áætlunarflug til London frá Akureyri tvisvar í viku og hefst það nú í lok október og stendur til loka mars á næsta ári. Leiguflug Voigt Travel er á dagskrá á tímabilinu janúar til mars 2024, alls 12 flug og félagið verður einnig á ferðinni frá Hollandi næsta sumar. Leiguflug frá Sviss með Kontiki eru í boði frá febrúar til mars og þá mun Edelwiss bjóð upp á vikulegt áætlunarflug frá Sviss í júní og til loka ágúst næsta sumar.