20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Svarthol í eldhúsinu
Það er kominn febrúar!! Til hamingu þið sem lesið þetta, þið lifðuð janúar af en vá hvað hann var lengi að líða. Í febrúar er til margs að hlakka, til dæmis renna þeir bræður bolludagur, sprengidagur og öskudagur upp von bráðar. Í minningunni er bolludagurinn einn af hátíðardögum æsku minnar. Það var ekki ætt út í búð og keyptar pakkabollur og ekkert var nú bakaríið á Hauganesi í denn, heldur bakaði mamma vatnsdeigsbollur í tonnavís (að manni fannst), hver annarri fullkomnari, sem voru fylltar með sultu og snarþeyttum rjóma og svo miklum glassúr að maður átti lengi glassúrbyrgðir úti á kinn, allavega fram á öskudag. Bolludagurinn var hátíð bakarans og bakarinn var mamma.
Svo er það þannig að þegar maður fer að reka eigið eldhús að maður vill ekki gefa neitt eftir í baksturstilþrifum, vitandi hvers konar minningar það skilur eftir sig fyrir krakkana, en stundum áttar maður sig ekki alveg á umfanginu. Ég á til dæmis þrjú börn og var undarlega tillitssöm við sjálfa mig að hafa tvo mánuði á milli afmælisdaganna þeirra, en ef ég baka til dæmis afmælisköku handa þeim á hverju ári þar til þau verða tvítug þá erum við að tala um 60 kökur þegar síðasta tvítugsafmælið rennur upp. Og stundum eru bekkjarafmæli og vinaafmæli og fjölskylduafmæli og þá kárnar reikningsgamanið og kökufjöldinn fer örugglega vel yfir hundrað stykki! Ég er viss um að margir tengja hérna.
Ég er ekki að kvarta, bara aðeins að gefa mér smá hugmynd um umfangið á þessari framleiðslu. Ef það eru síðan um 300gr af sykri í hverri köku þá gera þetta 18 kíló af sykri!! 72 þúsund kaloríur! En núna eru komin allskonar sætuefni á markað sem eiga að hjálpa blóðsykrinum að vera pollrólegum og hægja á vambarvextinum. Sitt sýnist hverjum um þessi gerviefni en ég ákvað nú samt að prófa eitt sinn, þegar mér blöskraði sykurmagnið í marens uppskriftinni sem ég ætlaði að fara eftir. Ég þeytti eggjahvíturnar fjórar eins og ættmæður hafa gert um aldir en gætti þess þó að þeyta ekki loftið úr þeim, setti svo samsvarandi magn af gervisykri og á að vera í fordæmda hvíta kristalnum. Þessi snjóhvíta blanda lofaði góðu, leit ljómandi vel út og fór full af hollustuhug með dassi af væntingum inn í ofninn. Þar horfði ég á eggjahvítublönduna rísa eitt augnablik þar til skyndilega Rómarveldi féll og gumsið fór að leka út um allt, teygði sig í öll horn, lekandi eins og hraunið í Holuhrauni í leit að farvegi sem var helst að finna í örvæntingarfullri spegilmynd minni í glerinu.
Mér tókst semsagt að gera þynnsta marens sögunnar, án nokkurra ýkjusagna var hann álíka þykkur og smjörpappírinn sem hann þrýsti sér upp við. Ef hann hefði verið þynnri þá hefði hann brotið lögmál eðlisfræðinnar og fallið inn í sig, hugsanlega var ég nálægt því að búa til svarthol í eldhúsinu!
Það er eitthvað sem segir mér að formæður okkar og feður hafi gert svipaðar tilraunir, kannski ekki með gervisykur, en með svipaða löngun til að leysa vandamál og búa til eitthvað nýtt. Þannig verða nefnilega framfarir. Og engin tilraun er eins góð og sú sem mistekst því hún gefur manni tækifæri til að prófa aftur, reyna eitthvað nýtt, læra af reynslunni. Mistök eru aldrei mistök í sjálfu sér. Allavega: “aldrei sjá eftir neinu sem hefur fengið þig til að hlæja!”
En það sem þessi átakanlega lífsreynsla skilur eftir sig, fyrir utan stórkostlega minningu um hláturskast í eldhúsinu (og á nokkrum rásum á snappinu), er að kannski er sykur bara ágætur þar sem hann á heima; í einstaka köku í afmælum, sirka einu sinni til þrisvar á ári. Ef það er einhver eftirsjá þá er það sennilega sú að hafa ekki tekið eitt jarðaber eða svo, lagt það ofurvarlega á miðja (pönnu)kökuna og tekið útúrstílaða mynd til að setja á instagram sem mótvægi í heimi þar sem allt virðist vera fullkomið.
Ég skora á Önnu Lilju Gunnlaugsdóttur til að rita nokkur orð fyrir okkur í blað næstu viku.