Svar við opnu bréfi
Sæll Björn Snæbjörnsson. Með opnu bréfi þínu í síðasta tölublaði Vikudags óskar þú svara við nokkrum spurningum vegna álagningu fasteignagjalda. Hér má finna svörin við þeim.
1. Hvers vegna ákvað bæjarstjórn að fara ekki að tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélögin hækki gjaldskrár sínar 2,5% að hámarki?
Bæjarstjórn fór að tilmælum Sambandsins og miðaði hækkun gjaldskrá sinna við 2,5%. Fasteignaskattsprósenta helst óbreytt milli ára en Akureyrarbær hefur undanfarin tvö ár lækkað álagningarprósentu fasteignaskatts um ríflega 13%. Því er það einfaldlega rangt að halda því fram að Akureyrarbær sé að hækka gjaldskrá sína. Líkt og formanni Einingar-Iðju ætti að vera fullkunnugt um var ekki samið um lækkun á fasteignaskattsprósentu við gerð lífskjarasamningsins. Hitt er annað að Akureyrarbær leggur sannarlega sitt lóð á vogarskálarnar til þess að lífskjarasamningar náist. Almennar gjaldskrárhækkanir eru ekki umfram 2,5% þrátt fyrir að ýmsar langtímafjárfestingar hafi gert ráð fyrir því.
2. Hvers vegna var ákveðið á milli umræðna um fjárhagsáætlun að hætta við að lækka álagningarprósentuna?
Ljóst varð að lífskjarasamningurinn yrði mun kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir, því var ákveðið að hækka launapott milli umræðna í 780 milljónir. Þá barst einnig bréf frá Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga þar sem bent er á að rekstur A-hluta sé ekki sjálfbær. Í því ljósi þótti ekki rétt að lækka fasteignagjöld að þessu sinni. Hins vegar var tekin ákvörðun um að hækka afslátt til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega um 10% en afslátturinn hefur verið hækkaður jafnt og þétt undanfarin þrjú ár.
3. Fjölgun íbúa Akureyrar er hægari en á landsvísu, er líklegt að hærri fasteigagjöld laði að sér íbúa og fyrirtæki til bæjarins?
Í úttekt Byggðastofnunar (sjá mynd) kemur fram að fasteignagjöld á Akureyri voru á árinu 2019 fyllilega samkeppnishæf. Ólíkt því sem hins vegar tíðkast á höfuðborgarsvæðinu erum við ekki að selja lóðir né leggja á sérstök auka byggingarleyfisgjöld sem íbúðareigendur nýrra fasteigna greiða. Segja má að slík gjöld séu ígildi fyrirfram greiddra fasteignagjalda til allt að 10-15 ára til viðbótar árlegum fasteignagjöldum, við það sleppa fasteignaeigendur á Akureyri. Þá teljum við að ýmislegt annað laði að íbúa en fasteignaskatturinn þá ekki síst góð þjónusta og innviðir sveitarfélags.
4. Kemur til greina að draga þessa ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar til baka og fara að tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga?
Nei það kemur ekki til greina að taka þessa ákvörðun til baka enda höfum við farið að tilmælum Sambandsins og ekki hækkað gjaldskrár umfram 2,5%.
5. Hefur þú orðið vör við óánægju íbúa vegna þessarar ákvörðunar um að hækka tekjur bæjarins af fasteignagjöldum um 8,8%?
Já, m.a. hjá formanni Einingar-Iðju.
6. Hefur þú orðið vör við ánægju vegna þessar ákvörðunar?
Ýmsir hafa sýnt því skilning að óraunhæft sé að lækka fasteignagjöld á þessu ári vegna fjárhagsstöðu bæjarins. Þá hafa aðrir nefnt að fjölmargir fasteignaeigendur á Akureyri greiði ekki útsvar til sveitarfélagsins, enda eigi þeir ekki lögheimili í bænum. Því sé ekki rétt að leggja áherslu á að draga úr þjónustu og lækka fasteignaskatt, heldur þvert á móti að fasteignaeigendur leggi til samfélagsins það sem þarf til að reka það með sómasamlegum hætti. Í því sambandi má nefna að á árinu 2019 fjölgaði íbúum um ríflega 100 á sama tíma og nýjum íbúðum á fasteignaskrá fjölgaði um tæplega 200, það segir sína sögu.
Fyrir hönd meirihluta bæjarstjórnar Akureyrarbæjar,
Halla Björk Reynisdóttir
Forseti bæjarstjórnar