20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Svar til Hjálmars og þeirra
Í greinarstúfi í Skarpi í liðinni viku var rætt við oddvita framsóknarflokksins í Norðurþingi og höfð eftir honum svolítil greining á pólitíkinni. Það þarf ekki að koma á óvart að plássið Skarps skyldi notað þetta skiptið til að vekja athygli á Vinstri grænum fremur en að koma hugðarefnum framsóknar á framfæri. Þetta hefur verið kunnuglegt stef framsóknarkarlanna í Norðurþingi meira og minna allt síðasta kjörtímabil. Því linnir vonandi með nýju fólki og nýjum tímum þetta kjörtímabilið.
Versta kosning framsóknar í sögu Norðurþings
Auk þess að gera kosningu Vinstri grænna að umtalsefni er í Skarpi rætt um meintan kosningasigur framsóknar. Í því samhengi er nú rétt að vekja athygli á því, sem virðist hafa farið framhjá sumum, að kosningin þetta vorið var versta útkoma framsóknarflokksins í sögu Norðurþings. Framsókn fékk 31% árið 2006. 38% árið 2010. 27% árið 2014. Lækkar svo enn núna árið 2018 eða í 26%. Það fór því ekki svo að eingöngu Samfylking og Vinstri græn misstu fylgi. Framsókn virðist nefnilega lækka flugið smám saman með árunum og nær það sögulegu lágmarki þetta vorið.
Stærstu flokkar mynda sjaldan meirihluta saman
Greinin umrædda endurspeglar líka þá meginskoðun að framsóknarflokkurinn í Norðurþingi eigi ótvírætt tilkall til meirihlutamyndunar. Nú er rétt að benda á að það er reyndar fremur sjaldgæft, þó ekki sé það óþekkt, í flokkapólitík almennt að stærstu flokkar hverju sinni myndi meirihluta. Demókratar og repúblikanar í Bandaríkjunum virðast einhvern veginn aldrei ná saman, ekki heldur íhaldsmenn og verkamannaflokkur í Bretlandi og ekki einu sinni Dagur Eggertsson og Eyþór Arnalds (sem leiðir nú stærsta framboð Reykvíkinga í minnihluta með um þriðjung atkvæða).
Traust er grundvöllur samvinnu
Nú væri hægt að velta sér upp úr samskiptum, uppstillingum og tjáningu einstaklinga og framboða Norðurþings í aðdraganda kosninganna í vor og reyna að túlka þetta allt saman. Það verður ekki gert hér, utan þess að benda á eina augljósa staðreynd: Til að framboð sé tækt í meirihlutasamstarf eða stjórnmálasamstarf yfir höfuð þarf eitt öðru fremur, þ.e. traust. Traust milli fólks og framboða. Um málefni og ekki síður leiðir og gagnkvæma virðingu, þó skoðanir kunni að vera skiptar. Það skyldi nú ekki vera að framganga og yfirlýsingar á liðnu kjörtímabili og í aðdraganda nýafstaðinna kosninga hafi mögulega rýrt þetta traust töluvert, og þrengt samstarfskosti? Mögulega brennt brýr í stað þess að byggja þær? Á liðnu kjörtímabili fór alla vega ekki mikið fyrir áhuga framsóknar á að skapa lágmarks traust til að geta hugsanlega átt samvinnu við Vinstri græn og óháð á einhverjum tímapunkti. Sem staðfestist með því að þaðan kom aldrei einu sinni símtal um mögulega samvinnu eftir kosningar.
Samvinnu þarf til að hafa áhrif
Farsæld sína í pólitík á fólk og flokkar einmitt gjarnan undir því þegar vel hefur tekist við að byggja upp traust og halda samstarfsmöguleikum opnum með jákvæðum og málefnalegum samskiptum. Líka þegar unnið er í minnihluta og aðhaldi beitt og gagnrýni. Með því myndast með tímanum leiðir til að koma á samvinnu, sem verður svo verkfærið til að ná eigin hugsjónum á dagskrá og koma til framkvæmdar. Svona myndast meirihlutar. Aldrei öðruvísi en með samvinnu einstaklinga og framboða, sem aftur getur aldrei komið til nema traust ríki milli leikenda. Og traust verður ekki til af sjálfu sér á einni nóttu. Ekki einu sinni kosninganóttu, þó oft sé hún löng.
Kannski ætti samvinnufólk í Norðurþingi að snúa undrun sinni um stöðu framsóknar að eigin helstu málpípum og spyrja þær: Hvernig hefur ykkur gengið undanfarið við að mynda traust með framgöngu ykkar við einstaklinga og framboð? Til að geta svo átt samvinnu við aðra? Svo sem eins og við að stjórna sveitarfélagi?
Í skólum Norðurþings látum við kenna börnum okkar að vinna í anda „jákvæðs aga“. Það gengur í stystu máli út á umhyggju, gagnkvæma virðingu, reisn, vinsemd og festu. Í ljósi þess hversu vel leikskólabörnum okkar hefur gengið að vinna eftir þessum viðmiðum hljótum við að geta gert þá lágmarkskröfu til okkar sveitarstjórnarfólks að gera slíkt hið sama. Þá mun þetta allt ganga ágætlega hjá okkur fullorðna fólkinu líka.
Fleira var það ekki.
Óli Halldórsson
Fulltrúi V-lista í sveitarstjórn Norðurþings og formaður byggðarráðs