Sundlaugin í Hrísey fagnar 60 ára afmæli

Sundlaugin í Hrísey fagnar 60 ára afmæli Nýir sauna- og infrarauðir klefar teknir í notkun
Sundlaugin í Hrísey fagnar 60 ára afmæli Nýir sauna- og infrarauðir klefar teknir í notkun

Nýir sauna- og infrarauðir klefar voru teknir í notkun í Sundlauginni í Hrísey í tilefni þess að laugin á 60 ára afmæli um þessar mundir og 16 ár eru liðin frá vígslu Íþróttamiðstöðvarinnar.

Kvenfélag Hríseyjar ákvað á aðalfundi sínum í vetur að gefa sundlauginni infrarauða klefann og sagði Hrund Teitsdóttir ein kvenfélagskvenna frá því á samkomunni að konur í kvenfélaginu hefðu unnið ötullega að því að sundlaugarbyggingin varð að veruleika á sínum tíma. Þær héldu kökubasara og skemmtisamkomur til að afla fjár til byggingarinnar.

Leggja áfram sitt af mörkum

„Saga sundlaugarbyggingarinnar sýnir dugnað og samstöðu Hríseyinga. Enn í dag sjáum þess merki að fólk vinnur víða óeigingjarnt starf í þágu eyjarinnar. Kvenfélagið ákvað á aðalfundi sínum í febrúar að minnst framtaks forvera sinna og fjárfesta í infra-rauðum klefa fyrir sundlaugina. Með því leggur kvenfélagið áfram sitt af mörkum til þess að bæta aðstöðu Hríseyinga til heilsueflingar og samveru,“ sagði Hrund.

Akureyrarbær stóð straum af kostnaði við saunaklefann. Boðið var upp á veitingar og nýr forstöðumaður Sundlaug Akureyrar, Gísli Rúnar Gylfason sem tekur við í sumar tók lagið.

Gísli Rúnar Gylfason nýr forstöðumaður Sundlauga Akureyrar tók lagið fyrir gesti.

Nýjast