Sumarstarf fyrir krakka í yngstu bekkjum grunnskóla

Katrín Árnadóttir.
Katrín Árnadóttir.

Nú er stelpan mín (6 að verða 7) búin að fara í sumarbúðir á Hólavatni í 3 daga og með okkur foreldrunum í viku frí erlendis. Þá eru bara 9-10 vikur eftir þar til skóli hefst aftur. Þar af hafa foreldrar ca. 3 vikna frí hvert um sig og jú, við erum búin með eina viku fyrir fríið erlendis (svo ekki sé minnst á frídaga sem taka þarf þegar skólar og leikskólar halda starfsdaga).

Hvernig í ósköpunum eigum við að komast af með þetta? Svör samfélagsins: Eigið þið ekki fjölskyldu sem getur hjálpað? Það er fullt af námskeiðum í boði. Fáið þið ekki bara einhverja stelpu til að vera með hana? Ekki viljið þið að barnið sé eilíft hjá einhverjum öðrum en ykkur, þið ákváðuð jú að eignast þetta barn.

Staðreyndin: Aðeins eitt námskeið er í boði á Akureyri sem dekkar fullan vinnudag foreldra (námskeiðið er skipulagt sem tveggja vikna – þá endurtekur dagskráin sig). Þar leggur fólk sig virkilega fram en nær með engu móti að halda í það faglega starf sem við erum vön með okkar börnum innan veggja skólans. Allt annað er púsl með tilheyrandi skutli – en nær ekki dekkun á venjulegum vinnudegi.

Hugmyndin: Við grunnskóla Akureyrar er starfrækt frístund á veturna. Því ekki að hafa eina slíka opna yfir sumartímann, skipuleggja dagskrá í samstarfi við þá sem nú þegar bjóða upp á skemmtileg námskeið. Fíra upp í mötuneytinu og bjóða upp á eina góða máltíð í hádeginu og viðhalda t.d. lestri eða öðru skólatengdu með faglærðu fólki. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta ekki vera nein kjarneðlisfræði. Reyndar bara borðliggjandi.

Nýjast