SUÐURFJARÐAVEGUR: Eitt best geymda klúður samgöngumála Austfjarða

Höfundur er Ágústa Ágústsdóttir og situr í 4. sæti á framboðslista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi…
Höfundur er Ágústa Ágústsdóttir og situr í 4. sæti á framboðslista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.

Um daginn skrapp ég austur á firði. Ekki að það sé merkilegt í sjálfu sér því þangað leita ég reglulega þegar færi gefst til.

Þessa ferð fór ég sérstaklega til að kynna mér ástand Suðurfjarðavegar frá Fáskrúðsfirði yfir á Breiðdalsvík sem hefur í áraraðir verið kallað eftir endurbótum og uppbyggingu á, en ráðamenn skellt skollaeyrum fyrir.

Ég fékk boð um að setjast undir stýri á stórum flutningabíl með tengivagni og aka sjálf þessa leið. Án nokkurs hiks stökk ég á boðið og fékk þar af leiðandi þau akstursskilyrði sem bílstjórum stórra þungaflutningabíla er boðið upp á dag hvern allan ársins hring, beint í æð.

Segja má með sanni að þarna hafi maður upplifað hringleikahús fáránleikans í sinni skýrustu mynd. Suðurfjarðavegur er hluti af Hringveginum og kallast því Þjóðvegur 1. Um þennan veg dag hvern allan ársins hring, fer ALLUR þungaflutningur Austfjarða og Austurlands um ásamt allri annari almennri umferð, og í ofan á lag hin aukna umferð ferðamanna sem aka hringveginn.

Samkvæmt Eurorap skýrslu er Suðurfjarðavegur settur í flokk þeirra vega sem taldir eru hvað hættulegastir í Norður-Evrópu. Enda sýnir sagan fram á mikinn fjölda slysa sem orðið hafa á leiðinni.

Stór hluti leiðarinnar er svo örmjór að líkja má akstrinum við stanslausan línudans bifreiðarinnar. Línudansinn byggist svo á því að reyna leggja hvern einasta þumlung vegarins á minnið því ofan á þetta bætast öflugir hlykkir, hnykkir, dældir og sig í veginum sem kasta bæði stýrishúsi bifreiðar sem og aftanívagni í allar og sitthvorar áttir. Svo ekki sé nú minnst á þann fjölda "vegbóta" sem einkenna leiðina og gæti vel staðist hörðustu samkeppni við færustu handverkskonu landsins í bútasaum ásamt öllum þeim hálf ónýtu einbreiðu brúm sem boðið er upp á og gefur orðinu "samgöngubætur" allveg glænýja merkingu í mínum huga eftir þessa ferð.

Þetta algjöra áhugaleysi stjórnvalda hefur hefur Austfirðingum verið boðið upp á í áraraðir, en lausn samgönguráðherra á málinu virðist felast í uppbyggingu vegar yfir Öxi. Uppbygging Axarvegar er eitt og sér í góðu lagi og myndi flokkast undir samgöngubætur. En það er mikill misskilningur ef menn halda að allur þungaflutningur Austfjarða muni færast yfir og upp á háan fjallveg, sem í ofan á lag er stefnt á að vegtolla með svokallaðri PPP aðferð þar sem um einkaframkvæmd verður að ræða.

Að mínu mati er Suðurfjarðavegur eitt best geymda klúður í samgöngumálum Austfjarða og ber vott um algjört skeytingaleysi ráðamanna um öryggi vegfarenda á aðalleið landsmanna um hringveginn sjálfan.

"Hvernig væri bara að kjósa það sama, gamla aftur. Af því bara?"

Hljómar þetta kunnuglega ?

Höfundur er Ágústa Ágústsdóttir og situr í 4. sæti á framboðslista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.

 Það er á hreinu að til þess að breytingar geti orðið þarf að kjósa þær !

Nýjast