Stytting vinnuvikunnar-Minni vinna-allir vinna?
„Er ekki alltaf brjálað að gera?“ er líklega algengasta spurningin sem ég hef fengið þegar ég hitti vini og kunningja á förnum vegi. „Jú, jú alveg brjálað eins og alltaf“ svara ég án þess að blikna. Á bak við þetta svar hefur engu að síður stundum verið löngun í meiri tíma til að vera með fjölskyldunni, vinum, ættingjum, meiri tími til að hreyfa mig, næra mig og hvílast.
Vegna þessara hugleiðinga hefur tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg, ríki og einkareknum fyrirtækjum vakið áhuga minn. Niðurstöður rannsókna virðast benda til þess að ef stytting vinnuvikunnar er útfærð með faglegum hætti og mikill vilji er fyrir hendi til þess að láta verkefnið ganga upp, þá er ágóðinn verulegur.
Lífsfylling og farsæld
Við heyrum síendurtekna og alvarlega umræðu um kvíða, þunglyndi, kulnun í starfi, streitu, hreyfingarleysi, of mikinn skyndibita, of lítinn svefn og of litla samveru með börnum og eldra fólki svo eitthvað sé nefnt. Ef hægt er að stytta vinnuvikuna án þess að það bitni á framleiðni eða þjónustu þá getum við grætt tíma sem við getum nýtt í það sem veitir okkur lífsfyllingu og tryggir farsæld okkar sem mannverur og þar af leiðandi farsæld samfélagsins alls.
Niðurstöður tilraunar kynntar
Mögulegur ávinningur verkefnisins er svo mikill að ég tel að Akureyrarbær eigi að stíga það skref að fara í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar, án launaskerðingar, og nýta þá reynslu sem er fyrir hendi við útfærsluna. Algjör grundvallar forsenda fyrir slíku verkefni er að vinnubrögðin séu fagleg og markviss, auk þess er nauðsynlegt að árangurinn sé metinn. Slíkar niðurstöður geta einnig verið gagnlegar við gerð kjarasamninga á almennum markaði. Til þess að fræðast nánar um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar þá höfum við hjá Samfylkingunni á Akureyri ákveðið að bjóða upp á opinn fund með Magnúsi Má Guðmundssyni, formanni stýrihóps um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg, þar sem hann mun segja okkur frá verklagi og niðurstöðum tilraunarinnar auk þess sem boðið verður upp á umræður. Fundurinn verður haldinn á Greifanum mánudagskvöldið 30. apríl kl. 20:00 og eru allir hjartanlega velkomnir.
Ég er sannfærð um að ef rétt er haldið á spilunum þá verði minni vinna til þess að allir vinna.
-Hilda Jana Gísladóttir, höfundur skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akureyri