Stúfur stígur á svið
Hin bráðhressandi og hjartastyrkjandi jólasýning Leikfélags Akureyrar Stúfur, verður í Samkomuhúsinu helgina 9. – 11. desember.
Sýningin er fyrir rollinga, unglinga, ömmur og afa og allt þar á milli. Samt mest fyrir snillinga. Hér birtist leikarinn, tenórinn, trúðurinn, heimsmaðurinn og eineltisbarnið Stúfur, geislandi af hæfileikum, ljúfur,hrjúfur, spriklandi og sprellfjörugur því hann hefur verið duglegur að læra og æfa sig í von um frekari frægð og frama.
Hann hefur nú kynnt sér leikhúsið; lært að syngja, dansa og segja sögur í mismunandi leikstílum – og síðast en ekki síst, lært að hlusta á leikstjórann. Stúfur segir áhorfendum sannar sögur af sjálfum sér og samferðarfólki sínu, í bland við frumsamin krassandi ævintýri sem ættu að gleðja jafnt börn, unglinga, foreldra, afa og ömmur – og jafnvel hina geðvondu og sípirruðu móður listamannsins, sjálfa Grýlu. Sjálfur segir Stúfur:
„Ég er jólasveinn með stóra drauma, svo stóra að þeir komast ekki almennilega fyrir inni í mér af því ég er frekar lítill.“
Í þessari sýningu sýnir hann og sannar að hann er enginn venjulegur jólasveinn!
Stúfur er einn af mörgum viðburðum í metnaðarfullri dagskrá Menningarfélags Akureyrar fyrir ungt fólk og börn.
Sýningin er um klukkutíma löng og ætluð börnum fjögurra ára og eldri.