Straumlaust í orkulandi
Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi ritaði á dögunum áhugaverðan pistil sem birtist á vefnum Grenivík.is um orkumál á Eyjafjarðasvæðinu og hugmyndir um að selja Bretum orku í gegnum sæstreng. Þröstur gaf Vikudegi góðfúslegt leyfi til að birta pistilinn í heild sinn hér á vefnum:
Straumlaust í orkulandi
Við Íslendingar trúum því að við séum afar orkurík þjóð, eigum gnótt umhverfisvænnar endurnýjanlegrar orku. Í seinni tíð hefur jafnvel verið umræða um að leyfa Bretum að njóta með okkur af hinni óþrjótandi auðlind, um sæstreng um Atlantshaf.
Það er því sérkennileg og ógnvekjandi staðreynd að næstu árin þarf vaxandi brennslu olíu til að mæta orkuþörf á Eyjafjarðarsvæðinu. Flutningskerfi raforku inn á svæðið er sprungið og má ætla að taki ekki minna en fimm ár að bæta þar úr. Jafnvel mun lengri tíma ef möguleikar til að kæra afgreiðslu mála og tefja framgang nýrra raflína verða nýttir til hins ítrasta.
Það er einnig hrikaleg hömlun á framfarir og íbúaþróun að ekki sé hægt að útvega raforku til þeirra sem áhuga hefðu á að stofna til nýrrar atvinnustarfsemi á svæðinu. Gagnaver og önnur meðalorkufrek starfsemi er þannig alveg út úr myndinni næstu árin, jafnvel áratugi.
Það sem enn verra er, að jafnvel þó að takist að tengja vestur til Blöndu og austur til Kröflu, mun áfram vanta afl og öryggi í kerfið til frambúðar meðan ekki tekst að tengja við virkjanir á suðurhálendinu.
Það virðist hafa myndast þverpólitísk samstaða um að Eyjafjörður og jafnvel Norðurland allt, skuli vera orkusvelt til framtíðar. Allir stjórnmálaflokkar hafa ályktað um eða hafa á sinni stefnuskrá að ekki skuli leggja háspennulínu yfir Sprengisand. Virkjanleg fallvötn í Skagafirði og Þingeyjarsýslu hafa verið sett í verndarflokk. Að sönnu eru áform um meiri nýtingu gufuaflsvirkjana, en þar gætir einnig vaxandi andstöðu og efasemda um endingu jarðhitans. Því er alls óvíst að áfram megi virkja hann meira en til beinnar uppbyggingar atvinnustarfsemi í nágrenni Húsavíkur.
Einn kostur er þá eftir, það er lína frá virkjunum á suðurhálendinu, um Fjallabak, austur sanda, um Öræfasveit, yfir Jökulsárlón, um Suðursveit, Mýrar, Nes og Lón og síðan áfram um Austurland að Kárahnjúkum. Þaðan að Kröflu og í Eyjafjörð. Tvöfalt lengri og dýrari leið en um Sprengisand. Það getur síðan hver séð í hendi sér hvort betra er að fara með háspennulínu um allar þessar náttúruperlur en yfir Sprengisand, með fullri virðingu fyrir hans sérstöðu.
Til að uppfylla orkuþörf og skapa framtíðarþróun byggðar eðlileg skilyrði við Eyjafjörð, og raunar víðar, sýnist mér að valið standi í raun milli þessara þriggja kosta. Það er, að leggja háspennulínu yfir Sprengisand, leggja háspennulínu um Suður- og Austurland eða að virkja fallvötn á Norðurlandi sem þegar hafa verið sett í verndarflokk!
Þeir stjórnmálamenn og einnig umhverfisverndarsinnar sem ætla að koma í veg fyrir lagningu línu yfir Sprengisand eru í reynd að lýsa því yfir að ekki skuli lengur ríkja jafnrétti til búsetu á Íslandi. Aðrar leiðir til að leysa orkuþörf hér á svæðinu eru einfaldlega verri í öllu tilliti, hvort sem horft er til kostnaðar eða umhverfis. Byggð sem ekki á kost á rafmagni af pólitískum ástæðum á sér enga von um að geta vaxið og dafnað eðlilega.
Nýs Alþingis og væntanlegrar ríkisstjórnar bíður það brennandi verkefni að svara, og það fyrr en seinna, hvernig leysa skal orkuþörf, ekki Breta og ekki bara sumra landshluta, heldur allra landshluta. Annað er yfirlýsing um að við ættum að huga að flutningi á Suðvesturhornið ef við viljum áfram fá straum þegar við stingum í samband. Ekki þarf að hafa áhyggjur af rafmagnsleysi þar í bráð, kannski liggja háspennulínurnar þangað bara um ómerkilegar og ljótar sveitir?
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri